Íslenskt verðlag helsta umkvörtunarefnið

Ferðamenn líta á kort. Ferðamálastofa hefur birt niðurstöður könnunar um …
Ferðamenn líta á kort. Ferðamálastofa hefur birt niðurstöður könnunar um lýðfræði, ferðahegðun og viðhorf ferðamanna sem sóttu Ísland heim árið 2018. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæpur helmingur ferðamanna, sem komu hingað til lands á síðasta ári og tóku þátt í könnun Ferðamálastofu um upplifun sína hér á landi, telur að verðlag sé á meðal þess sem helst megi bæta í íslenskri ferðaþjónustu. Þeir ferðamenn sem gáfu veitingastöðum og gististöðum hér á landi slæma einkunn, gerðu það flestir á grundvelli verðlagningar.

Ferðamenn voru beðnir um að gefa veitingahúsum á Íslandi einkunn á skalanum 1-10 og var meðaleinkunnin út úr því 7,5, en um fjórðungur svarenda gaf veitingahúsum á Íslandi lægri einkunn. 90% nefndu verðlagningu sem ástæðu fyrir því að lág einkunn væri gefin. Einungis 12% nefndu að gæðum matar væri ábótavant.

Þá voru ferðamenn almennt ánægðir með gististaði sína hér á landi, en yfir helmingur þeirra sem gáfu gististöðum sínum lága einkunn, á bilinu 0-6, nefndu það að gistingin hefði ekki verið peninganna virði.

Þetta er á meðal fjölmargra atriða sem má lesa út úr nýbirtum niðurstöðum Ferðamálastofu um lýðfræði, ferðahegðun og viðhorf erlendra ferðamanna á Íslandi árið 2018, en yfir 22.000 manns tóku þátt í könnuninni.

84% ferðamanna segjast með háskólapróf

Athygli vekur, þegar rýnt er í niðurstöðurnar, að 84% þeirra ferðamanna sem tóku þátt í könnuninni sögðust vera með háskólapróf, 45% með grunnmenntun á háskólastigi og 39% með framhaldsmenntun á háskólastigi.

Ferðamennirnir voru einnig spurðir um tekjur sínar í samanburði við aðra í þeirra búsetulandi. 11% ferðamannanna sögðu eigin tekjur vera háar, 42% sögðu þær yfir meðallagi en 39% sögðust vera með meðaltekjur í sínu búsetulandi.

Einungis 14% svarenda sögðu að Íslandsferð þeirra hefði verið skipulögð meira en sex mánuðum fyrir brottför, en flestir, eða 18,2%, sögðu að þeir hefðu skipulagt ferð sína með 1-2 mánaða fyrirvara.

Nokkuð stór hluti ferðamanna skipuleggur Íslandsferð sína með skömmum fyrirvara.
Nokkuð stór hluti ferðamanna skipuleggur Íslandsferð sína með skömmum fyrirvara. Mynd/Ferðamálastofa


61% tóku bílaleigubíl

Bílaleigubílar voru algengasti ferðamáti þeirra sem svöruðu könnuninni, en 61% ferðamannanna sögðust hafa haft slíkan til umráða á meðan þeir dvöldu hér á landi. 30,6% sögðust hafa ferðast um í skipulögðum rútuferðum og 14,8% sögðust hafa ferðast með áætlunarbifreið.

Athygli vekur að fáir Bretar virðast leigja sér bílaleigubíl er þeir ferðast um landið, en einungis 41% breskra ferðamanna fóru um á bílaleigubíl, á meðan 56% þeirra sögðust hafa ferðast um með skipulögðum rútuferðum.

Íslandsferð kostar yfir 200 þúsund að meðaltali

Meðalferðamaðurinn sem tók þátt í könnuninni eyddi tæplega 209.000 krónum í ferð sína til Íslands, en inni í þeirri tölu er flug hingað til lands og svo öll sú þjónusta sem ferðamaðurinn nýtti sér á meðan á dvöl hans stóð.

Dvalarlengd ferðamanna hér á landi var að meðaltali 6,3 nætur og var hún lengst hjá Mið-Evrópubúum, sem gistu 8,5 nætur hér að jafnaði. Bretar stöldruðu styst við og gistu að meðaltali 4,6 nætur á Íslandi.

Gistinætur eru fleiri að sumri en að vetri, nema reyndar …
Gistinætur eru fleiri að sumri en að vetri, nema reyndar hjá Kínverjum. Mynd/Ferðamálastofa

Ferðamenn fara í lengri ferðir til Íslands á sumrin en á veturna, meðallengd dvalar í ágúst var 8 nætur en einungis 4,9 nætur í desember, þegar hún er styst.

Einungis 10% fóru á Vestfirði

Ferðamennirnir voru spurðir að því hvert þeir fóru á ferð sinni um landið. Langfæstir fara á Vestfirði, eða einungis 10% þeirra ferðamanna sem tóku þátt í könnuninni.

Þá sótti einungis tæpur fjórðungur ferðamanna Austurland heim og þeir sem það gerðu gistu einungis 1,4 nætur að meðaltali í fjórðungnum. Rúm 28% sögðust hafa heimsótt Norðurland og þar dvaldi fólk að meðaltali í 2,5 nætur.

Ferðamennirnir halda sig að miklu leyti á SV-horni landsins.
Ferðamennirnir halda sig að miklu leyti á SV-horni landsins. Mynd/Ferðamálastofa

92% sögðust hafa heimsótt höfuðborgarsvæðið og þar gisti fólk að meðaltali 2,9 nætur, en 73,8% sögðust hafa sótt Suðurland heim og 45,4% fóru á Vesturland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert