Það sem af er sumri hafa tekjur af Vaðlaheiðargöngum verið um 35%-40% lægri en áætlanir gera ráð fyrir. Búist var við því að 90% umferðarinnar myndi fara í gegnum göngin en það hlutfall er einungis um 70%, sem þýðir að þrír af hverjum tíu bílum kjósa frekar að fara Víkurskarðið.
Á vef Félags íslenska bifreiðaeigenda er haft eftir Valgeiri Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga, að ýmsar ástæður kunni að vera fyrir þessu. Til dæmis standi enn yfir framkvæmdir og verið sé að vinna að betri merkingum. Þá hafi fleiri keypt ferðir í göngin fyrir fram með afslætti en búist var við.
„Það mátti allt eins búast við að fleiri kysu að fara um Víkurskarðið yfir hásumarið. Reyndin er sú að rútur kjósa að fara um skarðið og spara sér þannig greiðslu í göngin,“ er haft eftir Valgeiri á vef FÍB, en rútufyrirtæki nyrðra hafa sagt of kostnaðarsamt að fara með bíla sína í gegnum Vaðlaheiðina.
„Við munum þegar líður á sumarið greina þetta betur og finna út af hverju fleiri ákveða að aka um Víkurskarðið en við bjuggumst við. Það er engin ein skýring á þessu og miklu heldur margþættar ástæður. Við erum að lenda ítrekað í því að ferðamenn stöðva fyrir utan göngin vegna þess að þau passa ekki inn kort sem þeir eru að keyra eftir. Við vonum að vegamerkingar og bætt aðkoma að þeim munu auka umferð um göngin,“ sagði Valgeir.
FÍB segir á vef sínum að staðan sé þessi þrátt fyrir að Vegagerðin hafi „ekki enn gengið frá tilhlýðilegum merkingum“ við göngin til þess að upplýsa vegfarendum um hvaða leiðir séu í boði.
„FÍB hefur fengið sterk viðbrögð frá vegfarendum sem telja þennan skort á merkingum aðför að vegfarendum. Fólk sem er ekki staðkunnugt telur að eina leiðin frá Akureyri til austurs, eða þá sem stefna á Akureyri úr Þingeyjarsýslum og þaðan austur um, sé vegurinn um Vaðlaheiðargöng,“ segir á vef félagsins.