Áforma að friðlýsa Goðafoss

Goðafoss, sem er í Skjálfandafljóti í Bárðardal, er einn af …
Goðafoss, sem er í Skjálfandafljóti í Bárðardal, er einn af vatnsmestu fossum landsins. mbl.is/RAX

Umhverfisstofnun hefur kynnt áform um friðlýsingu Goðafoss í Þingeyjarsveit. Greint er frá áformunum á vef Stjórnarráðs og Umhverfisstofnunnar, en áformin eru kynnt í samstarfi við landeigendur og sveitarfélagið Þingeyjarsveit.

Goðafoss, sem er í Skjálfandafljóti í Bárðardal, er einn af vatnsmestu fossum landsins. Hann er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring. 

Friðlýsingaráformin miða að því að vernda sérstæðar náttúruminjar, breytileika jarðmyndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, sérkennum og útivistargildi svæðisins.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki eru á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár séu kynnt sérstaklega.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 18. september 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert