„Ég er ósammála því að það liggi ekki sérstaklega á þessu. Staðan í Vestmannaeyjum er þannig að hingað er komið nýtt skip, tilbúið til siglinga, og það sem stendur út af er að skipið getur ekki lagst að bryggjumannvirkjum í Vestmannaeyjum,“ segir Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, um ummæli upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar um tafir á áætlunarsiglingum nýs Herjólfs vegna vankanta á viðleguköntum í Vestmannaeyjahöfn.
Vegagerðin ber ábyrgð á hafnarmannvirkjum í tengslum við farþegaflutninga, en áætlunarsiglingar nýja Herjólfs stranda nu á því að viðlegukantar í Vestmannaeyjahöfn henta nýja skipinu ekki og ráðast þarf í endurbætur á þeim.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við mbl.is að ekki væri neinn „gríðarlegur þrýstingur“ á að hefja siglingar með nýju ferjunni.
„Ég myndi segja að það væri kominn þrýstingur á að við getum farið að taka í notkun nýtt skip, sem hefur legið ónotað við bryggju síðan í júní, fyrir utan tafirnar á afhendingunni á sínum tíma,“ segir Njáll.
„Satt best að segja er þolinmæðin kannski svolítið þrotin hvað þetta varðar, að bryggjumannvirkin í Vestmannaeyjum séu að stoppa þetta, sem ég hefði haldið að menn hefðu getað séð fyrir miklu, miklu fyrr.“
„Allt tal um það að það liggi ekki þannig séð á þessu og einhver rólegheit hvað það varðar, ég deili þeirri skoðun ekki með G. Pétri.“