„Þegar maður byrjar að hjóla eða labba, þá fattar maður svo margt,“ segir Jökull Sólberg Auðunsson. Í viðtali við mbl.is ræðir hann um svokallað „örflæði“, leiðir til þess að breyta ferðavenjum fólks og sjálfkeyrandi bíla, sem hann telur ekki nærri því að verða lausn á samgöngumálum borga.
Jökull kemur úr sprota- og hugbúnaðargeiranum og hefur prófað marga mismunandi hluti í þeim bransa þrátt fyrir að vera rétt rúmlega þrítugur. Hann stofnaði hugbúnaðarfyrirtækið Takumi, sem tengir saman áhrifavalda og fyrirtæki og er með starfsemi í þremur löndum, en áður hafði hann verið vörustjóri tölvuleikjafyrirtækisins QuizUp.
Í dag hefur hann nýlega kúplað sig út úr daglegum rekstri fyrirtækisins sem hann stofnaði, sett barnið sitt í annarra hendur, ef svo má segja, og starfar hjá ráðgjafarfyrirtækinu Parallel í Reykjavík. Á venjulegum vinnudegi ferðast hann á milli fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og veitir ráðgjöf. Það gerir hann oftast nær á rafmagnshjóli sínu, og ferðast um með bros á vör.
„Ég er mikið á fundum og er kannski fyrir hádegi á einum stað og á öðrum eftir hádegi. Og þá er geðveikt að geta verið á rafmagnshjóli. Maður þarf ekki að leita að bílastæði og í þessum miðbæjarradíus er maður fljótastur á rafmagnshjóli. Ég er búinn að mæla þetta margoft og rafmagnshjólið er hraðasti samgöngukosturinn ef þú vilt komast frá A til B. Fólk er að keyra hratt, en svo er það að leita að bílastæði lengi og labba svo frá bílastæðinu. Ég fer bara beint inn, brýt hjólið saman og labba með það inn,“ segir Jökull, spurður um hvernig hann hagi sínum samgöngum dags daglega.
Það sem kveikti áhuga blaðamanns á því að setjast niður með Jökli og ræða við hann er það hann hefur undanfarna mánuði verið að skrifa töluvert um hugðarefni sín, samgöngur, borgarskipulag og fleira, í fréttabréfinu Reykjavík Mobility, sem hann sendir á nokkur hundruð manns með reglulegu millibili.
Rafmagnshjól og núna nýlega, rafmagnshlaupahjól, hafa verið að hasla sér völl sem samgöngumátar í erlendum borgum undanfarin ár og nú er þróunin komin af stað á Íslandi. Jökull hefur talað um notkun slíkra tækja sem örflæði, sem er þýðing hans á enska hugtakinu micromobility. En hvað er það?
„Örflæði er bara hugmyndin um að lítill mótor sé nóg fyrir flestar ferðir. Hugmyndin um að minni tæki geti sinnt þessum samgönguþörfum einstaklinga í borginni,“ segir Jökull, en hugtakið hefur mjög verið að ryðja sér til rúms í umræðum um skipulagsmál nú þegar að tæknin er orðin slík að rafdrifin hlaupahjól drífa tugi kílómetra á einni hleðslu. Tæki sem kosta ekki mikið, taka lítið pláss í borgarumhverfinu, en koma fólki á milli staða á skjótan hátt án þess að það svitni hið minnsta.
„Hugmyndin með örflæði er að minni tæki passi betur inn í borg eins og nútímaborg vill vera. Þéttari og með minna og minna plássi fyrir bíla og minna plássi fyrir bílastæði,“ segir Jökull, en slík létt samgöngutæki geta bæði verið í einkaeigu og samnýtt og verkefni sem miða að því að koma upp rafmagnshlaupahjóla-leigu eru í pípunum hér á landi.
Jökull segir að þessi tæki hafi ótal kosti, en það sem honum finnst þó mesti kosturinn er hvað litlir rafmagnsmótorar geti verið skemmtilegir. Hann á bæði rafmagnsbíl og rafmagnshjól og segir það alveg klárt að það sé skemmtilegra að fara um á rafmagnshjólinu.
„Hröðunin á rafmagnshjóli er skemmtilegri og meira „thrilling“ og ég brosi meira, en samt er mótorinn pínulítill,“ segir Jökull, sem fer ferða sinna á hjóli frá danska fyrirtækinu Mate.
Að Jökull fari að mestu á rafmagnshjóli gerir honum og unnustu hans, sem búa í Hlíðahverfi, auðvelt um vik að eiga einungis eina bifreið í sameiningu. Hann telur að yfirvöld ættu að gera meira í því að opna augu fólks fyrir því að létt rafmagnstæki séu bæði góður og ódýr kostur fyrir fólk.
Það sé ein leið til þess að hægja á fjölgun ekinna bílferða á höfuðborgarsvæðinu, sem stefna nú hraðbyri í áttina að því að verða ein milljón á hverjum virkum degi, þar sem í meirihluta tilfella er einungis einn í hverjum bíl að fara tiltölulega stutta vegalengd.
„Ég vil ekki taka bílinn af neinum. Ég vil bara taka af þér bíl númer tvö. Eða kannski seinka því þangað til að fólk á þrjá krakka. Reykjavík er þar, það er bara slagurinn núna,“ segir Jökull og bætir því við að borgin sé að gera hárrétt með því að byggja betri innviði fyrir hjólreiðafólk og opna þessa sömu innviði fyrir rafmagnstækjum.
Hann segir einnig að ríkið geti komið að þessari þróun, í gegnum ívilnanir við kaup á rafmagnshjólum. „Það er náttúrlega fáránlegt að ríkisstjórnin sé að niðurgreiða rafmagnsbíla en ekki rafmagnshjól. Það finnst mér vera alveg galið,“ segir Jökull.
Ástæðan fyrir því að það er galið, að mati Jökuls, er sú að rafmagnsbílar eru með dýrari bílum á markaði og helst á færi tekjuhærri fjölskyldna að kaupa slíka.
Jökull sendi fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins fyrr í sumar um magn ívilnana og fékk þau svör þaðan að árið 2018 hefðu ívilnanir ríkisins til rafmagnsbílakaupenda verið rúmir þrír milljarðar króna, litlu meira en árið 2017.
„Þú færð hátt í milljón í meðgjöf ef þú kaupir rafmagnsbíl. Virðisaukinn er bara lagður alveg niður, upp að fjórum komma eitthvað milljónum. Ég hef ekkert massíft á móti þessari ívílnun á rafmagnsbílum, ég skil alveg þetta sjónarmið um orkuskipti í bílaflotanum, en það er verið að fókusa á toppinn á bílaflotanum, heimilin sem eru með háar tekjur. Það er lítill jöfnuður í þessu. Þetta er rosalega mikil búbót fyrir hátekjuheimili. Svo ferðu inn á bland.is og þar er fullt af bílum til sölu á 50.000 kall. Hvaða rugl er það? Þessir bílar eiga bara ekki að vera í umferð, það á bara að afskrá þá, farga þeim og eigandinn á að fá 200.000 kall, ef hann notar hann til þess að kaupa rafbíl, rafmagnshjól eða strætókort,“ segir Jökull.
Þannig segir Jökull að hægt væri að losna við þá bíla af götunni sem eru elstir og menga mest og á sama tíma myndi þetta hvetja til þess að fólk tæki upp aðra samgöngumáta en einkabílinn, breyta ferðamynstri fólks, sem hann segir mikilvægt og er bjartsýnn á að gerist á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum með öflugri almenningssamgöngum, Borgarlínu, sem öll sveitarfélögin vinna nú að í sameiningu.
Fyrr í vikunni ritaði Jökull grein á vefsíðu sína þar sem hann útskýrði af hverju hann, sem fyrir fjórum til fimm árum síðan hafði „mikla trú“ á að sjálfkeyrandi tækni myndi „kollvarpa“ öllu borgarskipulagi, er orðinn algjörlega afhuga því að svo geti orðið.
Aðalástæðan fyrir því, segir Jökull, er að hann hefur áttað sig á því að að sjálfkeyrandi bílar virka ekki í umhverfi þar sem aðrir hlutir en aðrir bílar eru á ferð, til dæmis hjólandi fólk eða gangandi fólk. Til þess að sjálfkeyrandi bílar geti virkað í borgarumhverfi, þurfi þeir að vera algjörlega aðskildir frá því fólki sem býr í borginni. Sú tækni er til, en hefur ekki hugnast neinum, hvorki bílframleiðendum né hinu opinbera.
Á undanförnum árum hafa svo fyrirtæki verið að þróa tækni til þess að þróa sjálfkeyrandi búnað, sem þurfi ekki á neinum sérstökum innviðum að halda. Þar hefur verið gengið of langt, segir Jökull.
„Í slagtogi með fjölmiðlum sem hafa varpað upp ógagnrýnni framtíðarsýn hafa einkafyrirtæki ofselt tæknina almenningi. Nú er staðan þannig að skipulagsfólk þarf að vinda ofan af þessum æsing meðal áhugafólks til þess að fá pólitískan stuðning við grunninnviði eins og strætó á forgangsakreinum,“ ritaði Jökull í grein sinni, og ræddi á svipuðum nótum við blaðamann.
„Fjölmiðlar vestanhafs hafa bara gleypt við einhverjum fullyrðingum frá Elon Musk og einhverjum fyrirtækjum sem vilja gjarnan blása lífi í einkabílinn með því að segja að bíllinn þinn geti gert hitt og þetta,“ segir Jökull, sem hefur ekki trú á því að framtíð borgarinnar liggi þar.
„Það er ekki það sem skipulagsfólk hefur áhuga á akkúrat núna. En bílfyrirtækin sjá þetta kannski sem leið til þess að halda einkabílnum gangandi,“ segir Jökull.