Aðgerðinni ítrekað frestað

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Sigurður Bogi

Reyn­ir Guðmunds­son, sem ligg­ur á hjarta- og lungna­deild Land­spít­al­ans, hef­ur sent opið bréf til stjórn­mála­manna, þar á meðal heil­brigðisráðherra. Þar ósk­ar hann eft­ir því að farið verði yfir stöðuna sem er uppi á gjör­gæslu­deild.

Reyn­ir seg­ist í bréf­inu hafa beðið eft­ir hjartaaðgerð frá því í byrj­un júní. Hann seg­ist margoft hafa verið kom­inn með aðgerðardag en aðgerðinni hafi verið frestað. „Þetta er ít­rekað að ger­ast og er farið að hafa mik­il áhrif á and­lega og lík­am­lega heilsu und­ir­ritaðs og jafn­framt á aðstand­end­ur sem hafa óneit­an­lega áhyggj­ur af ástand­inu,“ seg­ir hann.

Hann seg­ir ástæðuna fyr­ir frest­un­inni vera að gjör­gæsl­an get­ur ekki tekið við hon­um að aðgerð lok­inni vegna skorts á rúm­um. Einnig sé skort­ur á sér­hæfðum hjúkr­un­ar­fræðing­um á gjör­gæslu, meðal ann­ars vegna sum­ar­leyfa. Hann seg­ir fjóra aðra sjúk­linga á deild­inni vera í sömu spor­um.

„Und­ir­ritaður hef­ur átt sam­tal við frá­bært fag­fólk deild­ar­inn­ar og velt þess­ari stöðu fyr­ir sér. Í þess­um sam­töl­um hef­ur það komið fram frá fag­fólki að rúm á gjör­gæslu séu ein­göngu helm­ing­ur af því sem þau ættu að vera miðað við þann fólks­fjölda sem býr á Íslandi. Sam­kvæmt fag­fólki þá er ekki tekið til­lit til þess fjölda ferðamanna sem er í land­inu hverju sinni,“ seg­ir hann og bæt­ir við að rým­in á gjör­gæslu­deild séu aðeins sex tals­ins.

Hann seg­ir stöðuna vera bæði ólíðandi og hættu­lega og velt­ir fyr­ir sér kostnaði sam­fé­lags­ins við að hafa fimm mann­eskj­ur í biðstöðu á hjarta- og lungna­deild sem gætu verið í vinnu og skilað sínu til sam­fé­lags­ins. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert