Neitar að hafa brotið á friðhelgi einkalífs fanga

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson.

Blaðamaður DV og höfundur langrar umfjöllunar um Gunnar Rúnar Sigurþórsson segir firringu fólgna í því að telja að þær upplýsingar sem fram hafi komið í umfjöllun hans eigi ekki erindi við almenning. 

Í umfjöllun sinni fyrir helgi rifjaði Ágúst Borgþór Sverrisson upp brot Gunnars Rúnars og greindi frá því að Gunnar búi nú á áfangaheimilinu Vernd hvar hann nýtur frelsis til að stunda vinnu og lifa sínu lífi utan fangelsisins. Ber honum þó að dvelja á áfangaheimilinu þess utan og er útivistartími á Vernd til klukkan 21, eftir því sem fram kemur í umfjöllun Ágústs. Þá var greint frá heimilisfangi móður Gunnars, þar sem hann er með skráð lögheimili.

Gunnar var árið 2011 dæmdur í fangelsi fyrir morð á Hannesi Helgasyni, en þar sem hann þykir hafa sýnt af sér fyrirmyndarhegðun í fangelsi fær hann að afplána dóm sinn á Vernd. 

Í samtali við mbl.is staðfesti Páll Winkel fangelsismálastjóri á laugardag, að blaðamenn DV hefðu ekki fengið leyfi til að ná tali af Gunnari, en Ágúst sat fyrir Gunnari við Vernd og náði í hann þegar Gunnar kom heim úr vinnu. Gunnar afþakkaði viðtal við DV kurteisilega og gekk rólegur til síns heima. 

Í kjölfar umfjöllunar DV sendi Afstaða, félag fanga, frá sér fréttatilkynningu þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við fréttaflutninginn. Er í tilkynningunni meðal annars vísað til stjórnarskrárvarinna réttinda til friðhelgi einkalífs, siðareglna blaðamanna og reglugerðar um fullnustu refsinga. 

Segir ekkert leyfi þurfa til að ávarpa menn úti á götu

Í yfirlýsingu Ágústs frá því í dag gefur hann ekki mikið fyrir þá gagnrýni sem fréttaflutningur hans hefur fengið. Segist Ágúst ekki þurfa leyfi til að ávarpa mann úti á götu þegar hann stígur út úr bíl sínum og að fjölmiðlar hafi leyfi til að mynda þekkt fólk á almannafæri. 

Þá segir Ágúst Afstöðu hafa látið eins og „ég hafi brotist inn á Litla-Hraun og troðið mér inn í klefa hjá fanga,“ auk þess sem hann gefur lítið fyrir ásakanir um að með fréttaflutningi sínum hafi hann brotið friðhelgi einkalífs Gunnars. 

„En friðhelgi einkalífsins? Er mönnum alvara? Lögheimili mannsins er í þjóðskrá. Allir sem eru með einkabanka hafa aðgang að þjóðskrá. Að segja frá bíl mannsins? Bílar eru ekki eitthvað sem fólk notar í einrúmi innan veggja heimilisins, þessi maður eins og aðrir ekur auðvitað á bíl sínum um borg og bý,“ segir Ágúst í yfirlýsingu sinni, en í frétt hans var heimilisfang fjölskyldu Gunnars gefið upp. 

Segir Ágúst að í máli Gunnars vegist á ólíkir hagsmunir um rétt fanga til betrunar í sinni afplánun annars vegar og hins vegar hagsmunir fjölskyldu fórnalambsins. Undir sé „sígilt og mikilvægt álitamál um refsingar og betrun“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka