„Það er tvennt sem vegast á í því máli. Annars vegar er það krafan um að við getum rekið hér skilvirkt bankakerfi, þar sem kostnaði er haldið í lágmarki og við getum aukið hagræðingu í fjármálakerfinu til hagsbóta fyrir viðskiptavini, heimili og fyrirtæki. En hins vegar eru það samkeppnisleg álitamál.“
Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Morgunblaðið um hugmyndir þess efnis að sameina Arion banka og Íslandsbanka.
Líkt og blaðið greindi frá í síðustu viku hafa hugmyndir þessar hlotið góðan hljómgrunn meðal sérfræðinga og sagði stjórnarformaður Arion banka m.a. að slíkt væri eftirsóknarvert ef það yki hagræði og bætti rekstur.
„Mig grunar að það séu líkur til þess að slíkur samruni myndi ekki standast samkeppnislöggjöfina eins og hún er í dag,“ segir Bjarni og segir þörf á því að skoða þessar hugmyndir í samræmi við það.