Hæfisnefnd hefur metið Eirík Jónsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, hæfastan þeirra sem sóttu um embætti landsréttardómara. Frá þessu er greint á Kjarnanum og haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum.
Til stendur að skipa stöðu eins dómara í Landsrétt eftir að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu í vor og gaf út að hann hygðist setjast í helgan stein. Vilhjálmur var einn þeirra ellefu sem skipaðir voru löglega í dómarasæti Landsréttar á sínum tíma.
Eiríkur Tómasson, formaður hæfisnefndar, staðfestir í samtali við mbl.is að niðurstaða hæfisnefndar liggi fyrir, en segist bundinn trúnaði um niðurstöðu hennar þar til ráðuneytið birtir hana. Á hann von á að það verði gert á föstudag.
Alls sóttu átta um stöðuna, þar af tveir sitjandi dómarar í Landsrétti, þau Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir. Þau eru bæði á meðal þeirra fjögurra dómara sem Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í embættið þrátt fyrir að hafa ekki verið metin meðal hæfustu umsækjenda af hæfisnefnd.
Hafa þau ekkert dæmt frá því Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að annmarkar á meðferð ráðherra og Alþingis við skipun dómara við Landsrétt hefðu falið í sér brot gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.
Á meðal umsækjenda voru einnig Jón Höskuldsson og Ástráður Haraldsson en þeir voru, rétt eins og Eiríkur, ekki skipaðir dómarar á sínum tíma þrátt fyrir að hafa verið metnir meðal 15 hæfustu umsækjenda.
Eiríkur var, sem fyrr segir, metinn hæfastur en á eftir honum komu Ásmundur, Jón og Ástráður. Höfðu tveir umsækjendur, Friðrik Ólafsson og Ragnheiður Bragadóttir dregið umsókn sína til baka áður en hæfisnefnd lauk störfum.