Frekar óvanaleg staða er komin upp á íslenskum fasteignamarkaði. Samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans hefur hann verið í kyrrstöðu í sumar þar sem verð hefur staðið í stað og kaupendur hafa haldið að sér höndum. Á sama tíma er mikið magn íbúða sem nú eru í byggingu á leið inn á markaðinn.
Hagsjá Landsbankans kom út í gær. Þar kemur fram að fasteignaviðskipti í júní voru 23% minni en í sama mánuði í fyrra á höfuðborgarsvæðinu. Óvissa í efnahagslífinu og mikil veðursæld hafa þar líklega eitthvað að segja. Munurinn er engu að síður verulegur.
Í byrjun sumars gaf Þjóðskrá út tölur um fjölda íbúða í byggingu þar kom fram að tæplega 4000 íbúðir væru í byggingu auk þess sem leyfi hefðu verið gefin út fyrir byggingu á um 2000 íbúðum til viðbótar. Tölurnar voru síðar teknar úr birtingu á vef Þjóðskrár. Kjarninn skrifaði þó frétt upp úr tölunum.
Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir stöðuna vissulega afar óvenjulega en telur þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af henni. „Ég á von á því að þetta finni einhverskonar jafnvægi,“ segir Ari í samtali við mbl.is. Hann bendir á að í hruninu hafi raunverð fasteigna lækkað um 35% þrátt fyrir að nafnverð hafi nánast staðið í stað. Verðbólga olli lækkuninni en ólíklegt sé að það gerist aftur.
Rætt er við Ara í myndskeiðinu.
„Núna þurfum við að fá einhverskonar nafnverðsaðlögun. Hversu mikil hún verður og hvort hún verður er bara mjög erfitt að segja um vegna þess að þetta er tiltölulega ný staða.“
Tíminn verður því að leiða í ljós hvort nýjar eignir á markaði komi til með að lækka í verði með einhverjum hætti ef kaupendur hafa ekki bolmagn til að kaupa þær. Í gegnum tíðina hafa framkvæmdaraðilar frekar beðið með sölu eigna fái þeir ekki verð sem þeir geta sætt sig við en það getur verið kostnaðarsamt. Spurningin er því hvort fjöldi eigna sem eru á leið inn á markað og leigumarkað sé nægilega mikill til að breyta því að einhverju leyti.