Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og umsækjandi um starf seðlabankastjóra, óskar Ásgeiri Jónssyni, nýráðnum seðlabankastjóra, til hamingju með starfið. Hann sé vel til þess fallinn að takast á við verkefnið vandasama. Þetta kemur fram í færslu sem Gylfi setur á Facebook.
Segir Gylfi að vel hafi verið staðið að ráðningarferlinu og að áhugavert hafi verið að fylgjast með því. Gylfi er formaður bankaráðs Seðlabankans og segist hann hlakka til að vinna með Ásgeiri innan bankans.
Greint var frá því nú fyrir stundu að forsætisráðherra hefði skipað Ásgeir í embættið og tekur hann við störfum 20. ágúst. Hæfisnefnd mat fjóra mjög vel hæfa til að gegna embættinu, og voru Ásgeir og Gylfi báðir í þeim hópi auk Arnórs Sighvatssonar, fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóra, og Jóns Daníelssonar.
Forsætisráðherra boðaði fjórmenningana, auk þeirra fimm umsækjenda sem metnir voru „vel hæfir“ í starfið, á sinn fund og lagði fyrir þá spurningar um reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi, breytingar á Seðlabankanum, verkefni bankans og stjórntæki auk stöðu efnahagsmála og samspil við stjórnvöld og aðila vinnumarkaðarins.