Orkupakkanum verði vísað til þjóðarinnar

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

„Atbeini forseta Íslands er nauðsynlegur þegar kemur að þriðja orkupakkanum. Málið liggur að stærstum hluta fyrir sem þingsályktunartillaga um að tilteknar Evrópureglugerðir fái lagagildi,“ skrifar Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Ólafur telur ljóst að Guðni Th. Jóhannesson forseti hljóti að íhuga að vísa orkupakkamálinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Almennar þingsályktanir koma ekki til kasta forseta. Hér ræðir um þingsályktun um að taka upp í landsrétt tilteknar Evrópureglur. Þegar þannig stendur á er þingsályktun lögð fyrir forseta,“ skrifar Ólafur.

Hann segir málið flókið og að erlendum áhrifum yrðu í það minnsta falin óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar ef sæstrendur yrði lagður að landinu.

„Mörgum spurningum er ósvarað í málinu. Óljóst er um þjóðréttarlegt gildi lagalega fyrirvarans. Hverjar yrðu varnir Íslands í samningsbrota- og skaðabótamálum? Hvaða fjárhæðir gætu fallið á ríkissjóð sem skaðabætur? Rekast ákvæði í fjórða orkupakkanum á stjórnarskrá?“ spyr Ólafur.

Þingmaðurinn bendir á að í 26. grein stjórnarskrárinnar sé ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu synji forseti lagafrumvarpi staðfestingar. 

„Nærtækt er að líta þannig á að 26. greinin eigi eins við í þessu tilfelli. Samkvæmt því er á valdi forseta að leggja orkupakkann í dóm þjóðarinnar. Forseti Íslands gerði sérstaka könnun á málsmeðferð áður en hann undirritaði skipun 15 dómara við Landsrétt. Hann hlýtur að gaumgæfa undirritun sína fari svo að orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert