Margar bílaleigur hafa gripið til þess ráðs að rukka viðskiptavini, sem aka í gegnum Vaðlaheiðargöng án þess að greiða fyrir það, um þjónustugjald.
Greint var frá því í Morgunblaðinu á fimmtudaginn að nærri tvöfalt fleiri en spár gerðu ráð fyrir kysu að aka Víkurskarð í stað Vaðlaheiðarganga á leið á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Þar kemur fram að framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, Valgeir Bergmann Magnússon, telji að há álagning bílaleiga á veggjaldið, sem fyrir er 1.500 krónur á hverja ferð í gegnum göngin á fólksbíl, hafi fælandi áhrif á ferðamenn.
Af þeim bílaleigum sem blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af lögðu allar þjónustu- eða umsýslugjald á þá reikninga sem bárust þeim vegna Vaðlaheiðarganga. Nokkuð breitt bil var á því hversu hátt aukagjald bílaleigurnar lögðu ofan á veggjaldið en það var frá 1.300 krónum upp í 4.000 krónur. Enginn starfsmaður starfar í göngunum og þurfa ferðalangar því að skrá bíl sinn og greiða fyrir ferðina annaðhvort í gegnum snjallsímaapp eða vefsíðu innan þriggja tíma. Margir virðast þó kjósa að keyra í gegn án þess að greiða fyrir það og er þá reikningur sendur á eiganda ökutækisins, sem í þessu tilfelli eru bílaleigurnar.
Smári Hreiðarsson, starfsmaður bílaleigunnar Procar, segir að fyrirtækið hafi byrjað að rukka þjónustugjald, 1.300 krónur, fyrir óborgaðar ferðir viðskiptavina fyrir tæplega þremur vikum.
„Við gerðum þetta ekki í byrjun en svo varð þetta bara svo mikil umsýsla fyrir einn mann að brasa í þessu og taka á móti þessu að það bara kostar. Þetta er bara vinna,“ segir Smári sem segir að bílaleigan kynni ferðamönnum sem leigja bíla af henni fyrirkomulag Vaðlaheiðarganga. „Okkur finnst að göngin ættu að vera með starfsmann og gera þetta betur. Við erum ekki sátt við þetta og værum alveg til í að losna við þetta bras,“ segir hann og bætir við að fyrirtækið hafi aldrei orðið vart við vandræði af þessu tagi þegar rukkað var fyrir ferðir um Hvalfjarðargöng enda hafi starfsmenn á svæðinu séð um að rukka fólk fyrir að fara í göngin.