„Því miður hafa spár mínar um umferðarmálin í Kvosinni ræst. Ástandið er jafnvel verra en ég óttaðist,“ segir Ólafur Kristinn Guðmundsson umferðarsérfræðingur í samtali við Morgunblaðið.
Umræða hefur skapast undanfarið um miklar umferðarteppur sem myndast hafa á álagstímum á gatnamótum Geirsgötu og Lækjargötu/Kalkofnsvegar.
Ólafur segir að borgaryfirvöld hafi gert margvísleg mistök varðandi útfærslu gatnamótanna. Best hefði verið að leggja Sæbraut og Geirsgötu í stokk neðanjarðar en því var hafnað. Þá hafi lóð í Austurhöfn verið stækkuð með þeim afleiðingum að setja varð upp svokölluð T-gatnamót, sem ráði ekki við umferðina. Að auki séu umferðarljósin á gatnamótunum rangt sett upp, sem tefji umferð.