„Þetta er nú löngu komið úr böndunum en mér telst til að ég eigi nú 94 karla,“ segir dr. Gunnlaugur A. Jónsson. Safn hans barst í tal í ítarlegu viðtali við útskurðarmeistarann Urban Gunnarsson í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins, sem í meira en hálfa öld hefur sérhæft sig í því að skera í tré þekkta karaktera úr mannkynssögunni. Urban er Svíi og tók við verkstæði að Drottningargötu 77 af föður sínum sem allt frá þriðja áratug síðustu aldar gerði garðinn frægan í Svíþjóð fyrir sömu iðju.
„Þetta hófst í raun 2009 þegar við hjónin vorum stödd í Stokkhólmi. Þá hafði samband við okkur vinkona okkar Sigrún Aspelund. Hún bað mig þá um að koma við á verkstæði manns að nafni Urban Gunnarsson og sækja þar hlut fyrir mann hennar, Hrafnkel Helgason. Mér fannst nú nokkuð skrítið þegar upp úr dúrnum kom að þar var á ferðinni stytta af Adolf Hitler en Hrafnkell safnaði þá þessum körlum frá Urban. Hitler var hins vegar ekki til hjá karli og því fórum við heim með Castró fyrir Hrafnkel í þetta skiptið.“
Gunnlaugur fór á Drottningargötuna og sótti illmennið fyrir vinafólk sitt. En þegar upp á hótel var komið að lokinni heimsókninni fékk hann bakþanka og fannst hann þurfa að vitja verkstæðisins að nýju.
„Ég fór því daginn eftir á verkstæðið og ræddi við Urban. Spurði hvort ég fengi ekki afslátt ef ég keypti þrjá karla. Hann var ekki tilbúinn í neitt slíkt. Ég sagði honum þá að ég myndi kaupa fimm en þá yrði ég að fá afslátt. Hann féllst á það og síðan þá hefur þessi söfnun staðið sleitulaust,“ segir Gunnlaugur.
Þannig hefur körlunum fjölgað jafnt og þétt í áranna rás og nú rúmum áratug frá því að Gunnlaugur rakst inn til Urbans eru þeir að nálgast hundraðið. Raunar sagði Urban í viðtalinu í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins að enginn ætti jafn stórt safn og Gunnlaugur og undanskildi hann þá ekki stórtæka safnara í Svíþjóð.
„Mér telst til að við hjónin höfum heimsótt Urban að jafnaði tvisvar á ári og ég hef verið að taka 3-5 karla í hverri ferð. Auðvitað hef ég einnig sótt karla fyrir aðra safnara hér heima og stundum hef ég sent fólk fyrir mína hönd til Urbans. En svo tölum við saman reglulega, ekki síst þegar ég hef fengið hann til þess að skera út einhverja karaktera sem hann hefur ekki áður gert. Stundum liggja mörg klukkutíma löng samtöl að baki hverjum karli en það skilar sér líka oftast í mjög vel heppnuðum eintökum.“
Í fyrstu atrennu keypti Gunnlaugur þekktar útgáfur úr höfundarverki Urbans. Þar á meðal má nefna Winston Churchill, sem í áratugi hefur verið vinsælasta viðfangsefni hans en einnig Mahatma Gandhi.
„Urban hefur sérhæft sig að stórum hluta í karakterum af stjórnmálasviðinu, bæði í Svíþjóð og á heimsvísu. Ég hef hins vegar hvatt hann til að leita fanga víðar og það hefur komið mjög vel út. Þar hafa kannski ekki síst orðið fyrir valinu trúarleiðtogar af ýmsum toga en það skýrist nú m.a. af mínum bakgrunni,“ segir Gunnlaugur en hefur í áratugi gegnt embætti prófessors í gamlatestamentisfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands.
„En safnið er víðtækt og þar má finna fjölbreyttan hóp fólks, m.a. Sigmund Freud, hinn þekkta geðlækni og taugafræðing og einnig tónskáldið Antonín Dvořák. Svo hef ég fengið hann til að skera út nokkra Íslendinga og nú síðast bættust í safnið Haraldur Níelsson, sem fyrstur gegndi prófessorsstöðu í gamlatestamentisfræðum við Háskóla Íslands og svo Ólafur Thors, fyrrum forsætisráðherra.“
Gunnlaugur hefur beitt ýmsum aðferðum til að þrýsta á Urban í gegnum tíðina þegar honum hefur þótt hann taka fálega í að skera út ákveðnar persónur úr sögunni. Það átti m.a. við um Ben Gurion, fyrsta forsætisráðherra Ísraels sem Gunnlaugur hafði mikinn áhuga á að eignast vegna mikils áhuga á Ísrael. Þannig fékk hann ýmsa vini sína og kunningja til að líta við á verkstæði Urbans þegar þeir áttu leið um Stokkhólm og þá í þeim eina tilgangi að spyrja hvort hann væri ekki með Ben Gurion til sölu. Gerðist það t.d. einu sinni þegar vinahjón Gunnlaugs voru stödd í borginni að þau fóru í sitthvoru lagi á verkstæðið og báru upp sömu spurninguna.
„Hann sá í gegnum þetta karlinn. Það gat ekki verið eðlilegt að það væru sífellt að koma hingað Íslendingar að spyrja um þennan tiltekna mann. Þau hlutu öll að vera á mínum vegum sagði Urban og hafði gaman af. Svo fékk ég Ben Gurion í safnið og nú þegar Ólafur Thors er kominn í það líka eru þeir sameinaðir á ný. Þeir hittust hér í Reykjavík árið 1962.“
Spurður nánar út í safnið segir Gunnlaugur að í því sé að finna 18 fyrrverandi Bandaríkjaforseta og einnig þann sem nú gegnir embættinu. Því séu jafn margir Bandaríkjamenn í safninu og Svíar en Gunnlaugur hefur taugar til stjórnmálasögu Svíþjóðar þar sem hann bjó þar í tengslum við doktorsnám sitt í mörg ár.
„Svo eru þarna níu Íslendingar, sex Ísraelar, fimm Rússar og fjórir Bretar. Þjóðverjarnir eru jafnmargir Bretunum en í báðum þessum hópum gæti þó farið að fjölga.“
Þetta segir Gunnlaugur í ljósi þess að hann hefur áhuga á því að fá nýjan forsætisráðherra Breta í safnið, Boris Johnson. Þá hefur hann einnig borið upp við Urban hvort hægt sé að skera út Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.
„Það er helsti veikleiki safnsins að þar eru alltof fáar konur eða aðeins sex. Ég vil fjölga þeim en Urban hefur ekki reynst duglegur við að skera út konur. Fyrir því gefur hann ýmsar ástæður. En við Guðrún eiginkona mín vorum í Stokkhólmi um daginn og þá held ég að Guðrún hafi talað hann endanlega inn á að skera út Merkel.“
Og Gunnlaugur viðurkennir að Guðrún sé fyrir löngu orðin nokkuð þreytt á stórtækum „karlakaupum“ eiginmannsins. Þegar hann stillti sér upp fyrir ljósmyndara Morgunblaðsins nú um helgina horfði hún í forundran yfir safnið og spurði hvort ekki væri komið nóg.
„En hún sá reyndar einn kost við þessa uppstillingu. Hún sagði að nú gæfist mér kærkomið tækifæri til að þurrka af hillunum þar sem ég geymi þá,“ segir Gunnlaugur sposkur.
Hann er enda hvergi nærri hættur og þeir Urban ræðast við í hverri viku.
„Ég er með marga í pöntun hjá honum, m.a. konur. Auðvitað Merkel en svo hefur hann lofað mér Elísabetu Englandsdrottingu. Ég hélt hann yrði með hana tilbúna þegar ég fór síðast út en hann stóð nú ekki við það karlinn. En þetta kemur með þolinmæðinni. Svo langar mig mikið í Jackie Kennedy enda hefur maður hennar, John, verið lengi í safninu. Svo hef ég verið með sr. Friðrik Friðriksson í sigtinu og einnig Bjarna Benediktsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra og ég held hann gæti líka náð Pavarotti einstaklega vel. Ég hætti ekki heldur fyrr en ég fæ Martin Luther King í safnið.“
Og miðað við þessa upptalningu, sem vísast gæti verið mun lengri og ítarlegri er fátt sem bendir til annars en að Gunnlaugur muni innan skamms rjúfa „hundrað karla múrinn“. Takist Urban að skera Merkel bærilega út eru meiri líkur en ella á að það takist. Það myndi alla vega draga úr þrýstingi eiginkonunnar um að dregið verði úr söfnunarátakinu mikla.