Myndi gengisfella hugtakið „þjóðgarður“

Jökulsárgljúfur í Vatnajökulsþjóðgarði, sem félli allur undir miðhálendisþjóðgarðinn.
Jökulsárgljúfur í Vatnajökulsþjóðgarði, sem félli allur undir miðhálendisþjóðgarðinn. Ljósmynd/Vatnajökulsþjóðgarður

Nái mörk fyrirhugaðs miðhálendisþjóðgarðs utan um virkjanasvæði Landsvirkjunar, líkt og lagt er upp með í drögum nefndar um stofnun garðsins, myndi það gengisfella hugtakið „þjóðgarður“ verulega. Þetta segir í umsögn Landverndar, sem kallar eftir því að virkjanasvæðin verði tekin út fyrir fyrirhugaðan þjóðgarð, en að þau verði sett í sérstakan flokk og skilgreint hvernig starfsemi þar skuli háttað.

Þriðjungur landsins undir þjóðgarð

Stofnun miðhálendisþjóðgarðs er á dagskrá, en um hann er kveðið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og hefur umhverfisráðherra sagt að stofnun garðsins sé eitt af forgangsverkefnum hans í embætti. Miðhálendið þekur um 40% af flatarmáli Íslands, um 40.000 ferkílómetra, og er svæðið með stærstu óbyggðu svæðum Evrópu, enda hefur hálendi Íslands verið sagt stærsta eyðimörk álfunnar, í það minnsta samkvæmt einhverjum skilgreiningum á því fyrirbæri.

Nefndin um stofnun þjóðgarðsins, sem skipuð var í apríl í fyrra, leggur til að mörk þjóðgarðsins miðist við þjóðlendur og þegar friðlýst svæði, líkt og Vatnajökulsþjóðgarð. Þekur það svæði um þriðjung landsins, en innan þessara marka teljast fimm aflstöðvar Landsvirkjunar og tekur stofnunin undir með Landvernd um að ótækt sé að þau svæði falli undir þjóðgarðinn, því tryggja verði möguleikann á viðhaldi, endurbótum og stækkunum á orkumannvirkjum sem þegar eru í rekstri.

Drög nefndar um stofnun miðhálendisþjóðgarðs eru nú í samráðsgátt stjórnvalda og getur hver sem er skilað inn umsögn til og með 13. ágúst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert