Guðni Einarsson
Formaður Félags atvinnurekenda (FA) kveðst ekki átta sig á auknu framboði á lambahryggjum sem virðist hafa orðið til frá því fyrr í sumar. Talsmenn stórra afurðastöðva segja enga þörf á að flytja inn lambahryggi. Heimild til innflutnings á lambahryggjum hefur ekki verið gefin.
„Það komu ábendingar fyrir nokkru um að það yrði viðvarandi skortur á lambahryggjum alveg fram að sláturtíð,“ sagði Magnús Óli Ólafsson, stjórnarformaður FA. „Ég átta mig ekki á því hvaða breytingar urðu og hvernig það kom til að þegar hálfur til einn mánuður er í sláturtíð er ekki lengur þörf á innflutningi. Ég kann ekki heldur að útskýra hvaðan þessar birgðir af hryggjum komu sem menn töldu sig ekki geta gengið í á sínum tíma.“
FA hefur óskað eftir því að Samkeppniseftirlitið skoði háttsemi afurðastöðva, sem leitt hafi til fyrirsjáanlegs skorts á lambahryggjum í verslunum, og viðbrögð stjórnvalda við fyrirsjáanlegum skorti.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kveðst Magnús ekki muna til þess áður að talað hafi verið um yfirvofandi skort á vöru og það síðan dregið til baka. Þau hjá FA ætla að hittast í vikunni og fara yfir málið.