Tapar fylgi til Miðflokksins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur sem fyrr mests fylgis samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar fyrirtækisins Zenter fyrir Fréttablaðið, eða 20,5%. Lækkar fylgið um 2,1% frá fyrri könnun fyrirtækisins í síðasta mánuði.

Miðflokkurinn mælist með 13,4% fylgi og eykst fylgi flokksins um 3,6 prósentustig frá því fyrir mánuði. Fylgisaukning Miðflokksins virðist aðallega vera á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Rúm 20% þeirra sem sögðust hafa kosið flokkinn í síðustu þingkosningum árið 2017 segjast styðja Miðflokkinn nú ef marka má niðurstöður könnunarinnar.

Haft er eftir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að fylgið flökti til og frá á miðju kjörtímabili. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir þriðja orkupakka Evrópusambandsins væntanlega skýringuna á fylgisaukningu flokksins en vonandi skili sér einnig stefnufesta hans.

Samfylkingin mælist með 14,4%, Vinstri hreyfingin  grænt framboð með 12,9%, Píratar 12,3%, Viðreisn 10,6%, Framsóknarflokkurinn 8,2% og Flokkur fólksins 3,2%.

Skoðanakönnun MMR fyrr í þessum mánuði sýndi Sjálfstæðisflokkinn með 19% fylgi sem er það lægsta sem fyrirtækið hefur mælt fylgi flokksins. Fylgislækkun Sjálfstæðisflokksins virtist að sama skapi fara yfir á Miðflokkinn sem jók fylgi sitt og mældist með 14,4%.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert