Óttast áhrif losunar sands á lífríki

Dæla þarf sandi úr Landeyjahöfn á hverju ári.
Dæla þarf sandi úr Landeyjahöfn á hverju ári. mbl.is/RAX

Hafrannsóknarstofnun mælir með því að ítarlegar botndýrarannsóknir fari fram á nýjum efnislosunarstað vegna fyrirhugaðrar viðhaldsdýpkunar Landeyjahafnar. Lífríki er talið geta verið meira og fjölbreyttara þar en á eldri svæðum. Samgöngustofa óttast að fyrirhugað losunarsvæði nái yfir rafmagns- og vatnslagnir en Umhverfisstofnun gerir engar athugasemdir við tillögu að matsáætlun.

Vegagerðin lagði í júní á þessu ári fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum viðhaldsdýpkunar í Landeyjahöfn og efnislosunar í sjó. Tillagan hefur verið aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar sem hefur óskað eftir umsögnum og athugasemdum um matsáætlunina. Frestur til að skila inn umsögn rennur út í dag.

Nýr losunarstaður á að endast í áratugi

Fyr­ir­huguð viðhalds­dýpk­un Land­eyja­hafn­ar fel­ur í sér nýj­an og stærri efn­is­los­un­arstað sem er aðeins sunnar en núverandi losunarstaðir. Hann er um 240 hekt­ar­ar að stærð og tek­ur við um tíu millj­ón­um rúm­metra. Los­un­ar­svæðið er í þriggja kíló­metra fjar­lægð frá höfn­inni og á um það bil 30 metra dýpi. Búist er við því að nýi losunarstaðurinn endist í 20 til 30 ár.

Myndin sýnir fyrirhugað nýtt losunarsvæði. Hafrannsóknarstofnun vill láta gera frekari …
Myndin sýnir fyrirhugað nýtt losunarsvæði. Hafrannsóknarstofnun vill láta gera frekari rannsóknir á botndýralífi á svæðinu áður en efni verður losað á svæðið. Skjáskot/Skýrsla VSÓ ráðgjafar

Fyrirliggjandi rannsóknir ekki nógu ítarlegar

Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar segir að þær skýrslur og minnisblað um botndýralíf sem vísað er til í skýrslu, sem unnin er af VSÓ ráðgjöf, um viðhaldsdýpkun í Landeyjahöfn séu ekki nógu ítarlegar og nái aðeins til rannsókna á tveimur af fimm svæðum sem hafa verið notuð til losunar undanfarin ár.

„Nú er óskað eftir einu stóru losunarsvæði sem hugsað er sem varanleg lausn til efnislosunar til lengri tíma. [...] Í því ljósi er mælt með að gerðar verði ítarlegar botndýrarannsóknir á hinu nýja svæði svo að fyrir liggi haldbærar upplýsingar um botndýralíf á hinu nýja losunarsvæði áður en efnislosun hefst á svæðið,“ segir meðal annars í umsögninni.

Þá er talið að lífríki á hinu nýja svæði sé meira og fjölbreyttara en á eldri losunarsvæðum því þar sé dýpi meira og efnishreyfing minni þar. Þá telur Hafrannsóknarstofnun að aðeins ætti að losa efni utan við Landeyjahöfn (staðir RV og RA) í neyð í mjög skamman tíma.

Eldri losunarstaðir eru merktir A-E. Staðir RV og RA eiga …
Eldri losunarstaðir eru merktir A-E. Staðir RV og RA eiga að nota ef nauðsyn krefur t.d. vegna veðuraðstæðna. Skjáskot/Skýrsla VSÓ ráðgjafar

Losunarsvæði virðist ná yfir sjólagnir

Samgöngustofa gerir þá athugasemd við matsáætlunina að fyrirhugað losunarsvæði virðist ná yfir rafmagns- og vatnslagnir milli lands og eyja. Sé það raunin þurfi að færa svæðið frá lögnunum eða leita leyfis eigenda lagnanna til að varpa efni ofan á þær.

Umhverfisstofnun telur að í matsáætluninni sé á fullnægjandi hátt fjallað um helstu umhverfisþætti og gerði því engar athugasemdir við tillöguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert