Hefði getað farið á hinn veginn

Álft með ungum sínum.
Álft með ungum sínum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hundar geta tekið upp á þessu,“ segir Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir og formaður Félags ábyrgra hundaeigenda. Tveir hundar rifu í sig ófleygan álftarunga í síðustu viku í Húseyjarkvísl í Skagafirði.

Í Morgunblaðinu í gær var rætt við Finn Arnar Arnarson sem varð vitni að því þegar hundarnir króuðu unga af, trylltust og tættu hann í sig.

Freyja segir að það sé engin tilviljun að gúmmídýr og endur séu notuð sem leikföng fyrir hunda því það æsi upp í þeim leikgleðina. Guðbjörg Þorvarðardóttir dýralæknir sagði í Morgunblaðinu að svona úlfsleg hegðun þekkist meðal ýmissa tegunda. Hún þekki mál af hundum af tegundinni border collie, íslenskum fjárhundum, husky-hundum og blendingum sem hafa gerst sekir um svona hegðun.

Freyja tekur undir þetta og bætir því við að terrier hundar, sem einnig geta tekið upp á svona hegðun, séu ræktaðir til að elta upp rottur og minka. Það sé ekki endilega gert til að éta heldur til að drepa. 

En svo er náttúrulega líka annað að við hvetjum eigendur til að virða taumskyldu þar sem það á við. Í náttúrunni er leyfilegt að hafa þá lausa en þá þarf maður að fylgjast vel með,“ segir Freyja. Hún bætir við að eigandi hefði átt að vera nálægur til að kalla hundinn til sín.

Svanir geta drepið hunda

Freyja segir að til séu dæmi þess að málin hafi endað á hinn veginn; svanir hafi drepið hund. „Við höfum séð dæmi um hunda á sundi í Bandaríkjunum þegar svanir synda að þeim og drekkja þeim,“ segir Freyja. Þannig hefði þessi atburðarás vel geta farið á þá leið, sérstaklega ef hundarnir hefðu ekki verið tveir.

Freyja segist sjálf fara með hundinn sinn lausan í göngutúr ef hún er á stað sem hún er vön, eins og á Hólmsheiði. Hins vegar setji hún sitt dýr í taum um leið og hún mætir öðrum dýrum. „Maður þarf að hafa stjórn á sínum hundi.“

Hún segir að eins og atvikið hljómar, sem fjallað er um í Morgunblaðinu, hafi enginn eigandi verið nálægt. „Það er náttúrulega alls ekki gott,“ segir Freyja og hvetur eigendur til að hafa náið auga með hundum sínum þegar þeir leika lausum hala. 

Það liggur fyrir að þegar hundar gerast sekir um að drepa fé með þessum hætti er þeim lógað. Þá er þeim ekki treyst í kringum dýrin lengur. Venjan er ekki eins skilgreind þegar kemur að frjálsum fuglum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert