Sem sérsamningur gengur EES-samningurinn framar almennum þjóðarréttarsamningum. Því er mikilvægt að hafa í huga að Hafréttardómstóllinn eða aðrar alþjóðastofnanir munu ekki leysa úr ágreiningsmálum vegna skuldbindinga Íslands tengdum EES-samningnum, heldur stofnanir ESB. Þetta segir Arnar Þór Jónsson dómari í færslu sem hann birtir á Facebook í dag.
Arnar svarar þar grein sem dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögum, ritar í Fréttablaðið í morgun, en í þeirri grein áréttar Bjarni að ekkert sé í þriðja orkupakkanum fjallað beint um skyldu aðildarríkja EES „til að koma á eða leyfa samtenginu um flutning orku sín á milli“.
Segir Bjarni að öll aðildarríki EES-samningsins, sem og Evrópusambandið sjálft, séu aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1982 og bendir á að 311. grein þess samnings kveði á um að ákvæði annarra samninga, sem aðildarríki hafréttarsamningsins eiga aðild að, skuli vera í samræmi við hafréttarsamninginn. „Með öðrum orðum, hafréttarsamningurinn trónir á toppnum í alþjóðakerfinu,“ segir Bjarni og bætir við að samningurinn sé stundum kallaður stjórnarskrá hafsins.
Á móti segir Arnar að löglærðum megi vera ljóst að EFTA-dómstóllinn túlki mál jafnan „í samhengi við og í ljósi markmiðs og tilgangs“ samninga og gerða sem um ræðir á því réttarsviði, þ.e. að EFTA-dómstóllinn láti anda orkupakkans ráða fremur en hafréttarsamninginn.
Arnar Þór er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann hefur á undanförnum misserum verið virkur í umræðum um orkupakkann og meðal annars viðrað það mat sitt, ítrekað, að orkupakkinn grafi undan fullveldi Íslands.