Svo bar til í gær að lokið var við malbikun vegarins um Berufjörð á Austurlandi. Er nú bundið slitlag allan hringveginn. Um svokallaða klæðningu er að ræða, eða þunnt malbik eins og það er stundum kallað. Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni fyrir austan, segir mölina hafa verið sprautaða og klædda biki. Vegurinn batnar síðan eftir því sem hann er keyrður til.
Tæplega fimm kílómetra langur kaflinn var sá eini sem stóð út af eftir að bundið slitlag fékkst alla leiðina milli Akureyrar og Egilsstaða árið 2007.
Reglulegar breytingar eru gerðar á því sem heitir hringvegurinn, vegur nr. 1. Árið 2017 var skilgreiningu hringvegarins breytt þannig að hann lægi nú um Suðurfirði en ekki Breiðdalsheiði líkt og áður. Var það gert til að beina ferðamönnum síður um ófæra Breiðdalsheiðina, sem G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að verði seint malbikuð. Er vegurinn nú 1.341 kílómetri að lengd, en undanskilur vitaskuld Vestfirði.