Mikill meirihluti landsmanna telur loftslagsbreytingar af mannavöldum vera staðreynd. Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Zenter gerði fyrir Fréttablaðið. Segjast 87% vera mjög eða frekar sammála þessari fullyrðingu. 8% taka ekki afstöðu og 5% eru því frekar eða mjög ósammála að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu staðreynd.
Talsverður munur er á afstöðu svarenda eftir því hvaða stjórnmálaflokka þeir styðja. Þannig segja 97-99% þeirra svarenda sem kjósa Samfylkinguna, Vinstri grænna og Pírata loftslagsbreytingar af mannavöldum vera staðreynd.
Stuðningsmenn Miðflokksins og Flokks fólksins lýsa hins vegar mestum efasemdum um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Segjast 26% stuðningsmanna Miðflokksins annars vegar og 28% stuðningsmanna Flokks fólksins hins vegar vera ósammála því að svo sé. Fáir í öðrum flokkum lýsa yfir sömu skoðun, eða mest 4% meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins.
Þeir sem yngri eru eru líklegri til að segja loftslagsbreytingar af mannavöldum vera staðreynd heldur en þeir sem eldri eru. Í aldurshópnum 18-24 ára eru 83% mjög sammála fullyrðingunni. Í elsta aldursflokkinum, hjá 65 ára og eldri, er 41% sammála því að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum en 30% eru því ósammála.
Zenter gerði könnunina fyrir Fréttablaðið með því að senda spurningalista á 2.000 manna könnunarhóp. Svarhlutfall var 51% og voru svörin vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.