Umhverfisstofnun hefur ákveðið að bregðast við álagi á þremur viðkvæmum náttúruperlum í Mývatnssveit með aðgerðum sem leiða munu til betri stýringar umferðar fólks um svæðin en verið hefur.
Svæðin eru Hverir, Leirhnjúkur og Stóra-Víti, öll í landi Reykjahlíðar. Landeigandi í Reykjahlíð óskaði eftir því að Umhverfisstofnun takmarkaði aðgengi ferðamanna að svæðunum, að því er segir í tilkynningu.
„Þegar stofnunin auglýsti eftir athugasemdum komu fram skiptar skoðanir meðal landeigenda sem og annarra umsagnaraðila um ástand svæðisins og aðgerðir. Í ljósi verndargildis svæðanna telur Umhverfisstofnun rétt að bregðast við með því að loka hringleið umverfis Stóra-Víti. Til fleiri ráðstafana verður gripið s.s. með því að fjölga göngustikum á öllum svæðunum þremur, skerpa með því á leyfilegum gönguleiðum og setja upp skilti sem banna ferðafólki umferð utan þeirra,“ segir í tilkynningunni.
Fimm landverðir munu vinna að því að vernda svæðið með þessum hætti næstu daga. Auk þess mun daglegt eftirlit næstu vikur fara fram til að fylgja því eftir að reglur verði virtar.
„Við höfum ekki áður farið þessa leið en með þessum skrefum vonumst við til að ná sama árangri og ef svæðinu hefði verið lokað fyrir umferð ferðafólks. Okkar reynsla er að fólk virði almennt reglur um stýringu umferðar og því er mikilvægt að koma henni á,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, staðgengill forstjóra Umhverfisstofnunar, í tilkynningunni.