Heimsmeistarakeppni íslenska hestsins hófst í Berlín í dag, en landsliðsknapar og hestar voru allir í gær komnir á keppnissvæðið í Karlshorst í Berlín og notuðu tímann til að koma sér fyrir og kynna sér aðstæður og skipulag á svæðinu.
Alls eru 22 hestar í íslenska landsliðinu. 17 þeirra komu frá Íslandi í byrjun vikunnar og 5 koma frá Danmörku og Þýskalandi. Hesthúsið sem íslenska landsliðið fékk úthlutað, sóttkvíin svokallaða, er staðsett þannig að smithætta sé eins lítil og mögulegt er. Engir hestar eru til að mynda í þeim húsum sem næst liggja og passað er vel upp á að reiðleiðir íslensku hestanna skarist sem minnst við reiðleiðir annarra hesta.
Fyrstu dagana hafa knaparnir nýtt til að sýna hestunum svæðið, gengið með þá og fetað í rólegheitum um svæðið.
Veðrið hefur leikið við menn og dýr og hitinn hefur verið hóflegur, eða milli 25 og 30 gráður, og allt kapp hefur verið lagt á að gera aðstæður sem bestar fyrir hesta og knapa.
Íslenska sendiráðið í Berlín bauð landsliðinu til móttöku í sendiráðinu á föstudagskvöld og tók Elín Rósa Sigurðardóttir, staðgengill sendiherra, þar á móti hópnum.