Fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, dr. Carl Baudenbacher, segir aðspurður í viðtali við mbl.is að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) hafi haft yfirþjóðleg einkenni allt frá því að hann tók gildi fyrir aldarfjórðungi síðan. Þetta segir hann eiga við um valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins á sviði samkeppnislaga og valdheimildir ESA þegar kemur að fjármálaeftirliti.
Frá því að EES-samningurinn tók gildi hefur samningurinn þróast yfir á svið sem hann hafi ekki náð til á þeim tíma að sögn Baudenbachers. Þetta segir Baudenbacher, sem starfar í dag sem sjálfstæður lögfræðilegur ráðgjafi og ritaði meðal annars álitsgerð um þriðja orkupakka Evrópusambandsins að beiðni utanríkisráðuneytisins, að sé eðlileg afleiðing af grunnreglu EES-samningsins um einleitni.
Baudenbachers fjallaði um þetta í ritgerð sem birt var í Tímariti lögfræðinga árið 2007 en ritgerðin hefur verið gerð að umtalsefni í umræðunni um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem stjórnvöld vilja að samþykktur verði á Alþingi vegna aðildar Íslands að EES-samningnum. Nú síðast af Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Ölfusi.
Þú ritaðir í grein í Tímarit lögfræðinga árið 2007 þar sem þú færðir rök fyrir því að EES-samningurinn væri yfirþjóðlegur samningur sem rúmaðist sem slíkur ekki innan ákvæða Stjórnarskrár Íslands. Ennfremur að sú hefði mögulega alltaf verið raunin frá því að samningurinn var undirritaður, í það minnsta á þeim tíma þegar greinin var rituð. Telur þú að EES-samningurinn hafi í raun alltaf verið yfir yfirþjóðlegs eðlis?
„Ég er í fríi og hef ekki ritgerðina frá 2007 fyrir framan mig. En ég minnist þess ekki að hafa sagt eitthvað um það hvort EES-samningurinn samræmist íslensku stjórnarskránni. Það sem ég man eftir að hafa ritað er að EES-samningurinn hafi yfirþjóðleg einkenni. Sú hefur verið raunin frá upphafi. Það má einnig kalla þessi einkenni hálf-yfirþjóðleg, það er smekksatriði. EFTA-dómstóllinn hefur viðurkennt ríkisábyrgð í Sveinbjörnsdóttir-dómsmálinu, en hafnað beinni réttarverkan í Karlsson-dómsmálinu. Í báðum málum var óskað eftir áliti dómstólsins af Héraðsdómi Reykjavíkur. Þessi fordæmisréttur var samþykktur af Hæstarétti Íslands.“
Hvaða hlutar af EES-samningnum eru í raun yfirþjóðlegir að þínu mati?
„Valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins á sviði samkeppnislaga og valdheimildir ESA þegar kemur að fyrirkomulagi nýja fjármálaeftirlitsins.“
Hefur EES-samningurinn haldið áfram að þróast í yfirþjóðlegar áttir og má búast við því að sú þróun eigi eftir að halda áfram á næstu árum og áratugum og jafnvel í auknum mæli í ljósi þess hvernig samningurinn hefur þróast til þessa?
„Líkt og ég sagði voru yfirþjóðlegu einkennin þegar til staðar árið 1994. Íslendingar ættu að vera þakklátur þeim sem báru ábyrgð á þeim tíma, Davíð Oddsyni, Jóni Baldvini Hannibalssyni og Hannesi Hafstein heitunum. Það sem gerst hefur síðan er að EES-samningurinn hefur þróast áfram yfir á svið sem hann náði ekki til á þeim tíma. En það er eðlilegt, það er einfaldlega afleiðing af grunnreglunni um einsleitni. Það hafa verið mikil læti að undanförnu vegna innleiðingar þriðja orkupakkans í EES-samninginn. Ég vil undirstrika að orkumál heyrðu undir samninginn frá upphafi.“
Mig langar að lokum að spyrja um tengt mál. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið, líkt og þú þekkir, að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara á þriðja orkupakka Evrópusambandsins og innleiða löggjöfina með þeim hætti að fresta gildistöku hluta hennar um óákveðinn tíma þar til ákveðnar aðstæður skapast komi til þess.
„Ég er vissulega meðvitaður um að íslenska ríkisstjórnin hefur ákveðið að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkanna og innleiða löggjöfina sem snertir hann. Hins vegar er Ísland ekki tengt meginlandinu [í gegnum rafmagnssæstreng] og mun ekki verða það nema þingið ákveði það.“
Þekkirðu einhver fordæmi þess að löggjöf frá Evrópusambandinu hafi verið innleidd í gegnum EES-samninginn með þessum hætti af öðru EFTA/EES-ríki?
„Ég held ekki að þetta skipti neinu máli. Það sem máli skiptir frá sjónarhóli íslensks fullveldis er að reglugerð 713/2009 sem liggur til grundvallar ACER [Orkustofnun Evrópusambandsins] var aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Það eru engar undanþágur frá reglunum. En reglurnar eiga aðeins við ef og þegar Alþingi segir já. Enginn getur neytt Ísland til þess að tengjast. Það er enginn lagalegur grundvöllur fyrir því, ekki í EES-samningnum og ekki í þriðja orkupakkanum sjálfum. Það er, að mínu áliti, óhugsandi að ESA muni vefengja innleiðingu reglugerðarinnar.“