Sofa á dýnu í herbergi barnabarnanna

„Þetta er alveg út í hött að ætla bara einhliða …
„Þetta er alveg út í hött að ætla bara einhliða að velta þessu á kaupendurna sem eru bara að kaupa sér griðastað fyrir elliárin sín,“ segir dóttir hjóna sem keyptu sér íbúð í blokk Félags eldri borgara við Árskóga 1-3 í Mjódd. mbl.is/Árni Sæberg

Foreldrar Hrefnu Lindar Ásgeirsdóttur hefðu að öllum líkindum samþykkt skilmálabreytingar á kaupsamningi sínum við Félag eldri borgara í síðustu viku, ef Hrefna og maður hennar hefðu ekki náð að sannfæra þau um að staldra við. Þau eru í mikilli óvissu um framhaldið.

Nú sofa foreldrar hennar á dýnu í herbergi barnabarna sinna, í stað þess að vera komin inn í nýja íbúð í Mjóddinni sem þau hafa þó sannarlega gildan kaupsamning fyrir. Hrefna segir að þau séu að skoða sína stöðu og ætli að funda með lögfræðingi fasteignasölunnar sem sá um viðskiptin. Þar ætla þau að fara fram á að greiða afhendingargreiðsluna og fá lyklana. Hún segir þó nokkuð útséð með að það gangi ekki eftir, þar sem verktakarnir, MótX, eru með lyklana að íbúðunum.

Vonast eftir sáttaleið

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir
Hrefna Lind Ásgeirsdóttir

„Ég vona að það verði farin einhver sáttaleið. Hvorki foreldrar mínir né aðrir nenna að vera í einhverjum dómsmálum um það sem augljóst er, þeirra réttur. Ég vonast til þess að aðilar að málinu verði kallaðir saman og það verði farin einhver sáttaleið,“ segir Hrefna og nefnir þar Landsbankann, sem fjármagnar verkið, MótX sem að byggði húsin, FEB og svo kaupendur.

„Þetta er alveg út í hött að ætla bara einhliða að velta þessu á kaupendurna sem eru bara að kaupa sér griðastað fyrir elliárin sín,“ segir Hrefna, sem kallar eftir því að FEB sýni kaupendum gögn sem sýni fram á það hvernig þessar rúmu 400 milljónir, sem upp á vantar, séu til komnar.

Hún undrar sig á því að þessi vanáætlun hafi ekki verið komin fram þegar kaupsamningar um íbúðirnar voru gerðir snemma á þessu ári.

Mun ekki fallast á þá kosti sem FEB býður upp á

Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður 87 ára konu sem hafði fest kaup á íbúð í öðru húsanna, segir í samtali við mbl.is að hann telji mikið af því fólki sem skrifaði undir skilmálabreytingu á kaupsamningi sínum við félagið hafi gert það eftir að hafa verið setti afarkostir í strembinni stöðu, en samkvæmt því sem Ellert B. Schram formaður FEB segir höfðu 10 kaupendur samþykkt að greiða hærra verð fyrir íbúðir sínar.

„Þarna er bara verið að stilla gamlingjum upp við vegg,“ segir Sigurður Kári, sem fundaði með FEB á föstudag og sendi félaginu í kjölfarið bréf þar sem hann gerði grein fyrir því að skjólstæðingur hans myndi ekki fallast á það að falla frá kaupunum eins og fólki var boðið að gera og það yrði heldur ekki fallist á það að greiða viðbótargreiðslu umfram skyldu.

Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður.
Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þeir hafa til dagsins á morgun til þess að bregðast við bréfinu,“ segir Sigurður Kári og bætir við að ef svar berist ekki frá FEB muni hann skoða það með skjólstæðingi sínum að fara með beiðni niður í héraðsdóm og óska eftir því að fram fari innsetningargerð.

„Það er alveg ljóst að félagið er ekki í neinum rétti. Það er algjörlega réttlaust til þess að krefjast viðbótargreiðslna og réttindin eru öll kaupendanna.“

Stjórnin fundar um stöðuna síðdegis

Félag eldri borgara hefur viðurkennt að það hafi engan lagalegan rétt til þess að krefjast viðbótargreiðslu fyrir íbúðirnar, en Gísli Jafetsson framkvæmdastjóri félagsins (og reyndar líka kaupandi íbúðar í húsinu) fundar í dag með fleiri kaupendum um stöðuna, ásamt ráðgjafa félagsins.

Félagið er þannig á hnjánum að biðla til kaupenda og félagsmanna í félaginu um að greiða meira og sækja ekki rétt sinn, því ella sér félagið fram á að fara í gjaldþrot. Stjórn félagsins kemur saman til fundar kl. 17 í dag til þess að ræða málið.

Félaga eldri borgara hefur í gegnum árin staðið fyrir íbúðauppbyggingu fyrir félagsmenn sína á fleiri stöðum í borginni og auk Árskógaverkefnisins hefur félagið fengið vilyrði um lóð á hinum svokallaða Sjómannaskólareit í Austurbæ, til að byggja íbúðir fyrir félaga sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert