Bílstjórar auki tekjur með aukavinnu

Olíuflutningabíll valt á Öxnadalsheiði í síðustu viku. Ökumaðurinn sagðist í …
Olíuflutningabíll valt á Öxnadalsheiði í síðustu viku. Ökumaðurinn sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa unnið við aukavinnu dagana fyrir slysið, en hann dottaði við stýri með þeim afleiðingum að bíllinn valt. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Þekkt er að atvinnubílstjórar auki við tekjur sínar með aukavinnu vegna lágra launa að sögn Óskars Jens Stefánssonar, formanns bifreiðastjórafélagsins Sleipnis, en hann segist þó ekki hafa nákvæman mælikvarða um umfang þessa.

Í viðtali Morgunblaðsins við ökumann olíuflutningabíls sem valt á Öxnadalsheiði í síðustu viku kom fram að hann hefði unnið mikið við önnur störf dagana fyrir veltuna. Hann lýsti því að hann hefði eftir á að hyggja verið þreyttur við aksturinn þótt hann hefði talið sig úthvíldan þegar hann mætti til vinnu.

Ökumenn geti „sprengt skalann“

„Það er nú ekki mikið um þetta, en þetta er þekkt. Menn eru að hífa upp launin sín vegna lágra launa sem þeir hafa fyrir þessi störf. Þá eru þeir í annarri vinnu annars staðar. Það verður að hafa í huga að menn eru háðir ákveðnum reglum og skilmálum varðandi aksturs- og hvíldartíma og það á líka við ef menn eru í annarri vinnu,“ segir Óskar Jens. Hann segir að Evrópulöggjöf um vinnutíma sé í raun strangari en reglur um aksturs- og hvíldartíma í þessu tilliti.

„Menn eiga samkvæmt bókstafnum að fara ekki yfir ákveðinn vinnutíma á viku hverri. Ef menn vinna í afgreiðslustörfum, í verksmiðju eða annars staðar og hlaupa svo í þetta, þá geta þeir í raun verið að sprengja skalann,“ segir hann.

„Reglur um aksturs- og hvíldartíma snúa meira að aksturstímanum, þ.e. að hann fari ekki út fyrir öll mörk, en það er hægt að lengja vinnutímann ef það er t.d. bið sem telst ekki til aksturstíma o.s.frv.,“ segir Óskar Jens.

Bannað að semja um ekna vegalengd eða magn

Bann er lagt við því í reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna að laun ökumanna sem annist fólks- og farmflutninga í atvinnuskyni miðist við ekna vegalengd eða flutt magn af farmi hvetji slíkt til brota á ákvæðum reglugerðarinnar. Jafnframt er óheimilt að veita ökumanni kaupauka eða launauppbót í slíkum tilvikum.

„Ef vinnuveitandi setur það í kjarasamninga eða ráðningarsamninga, þá er það alfarið á ábyrgð hans. Allt sem hvetur til þess að bílstjórinn sé að keyra meira er stranglega bannað samkvæmt ákvæðum reglugerðar um aksturs- og hvíldartíma bílstjóra,“ segir Óskar Jens, en „flytjandi“ ber alfarið ábyrgð á þessu að því er fram kemur í reglugerðinni.

Aftur á móti er það á ábyrgð ökumannsins að fara eftir reglum um hvíldartíma. „Hann er algjörlega á ábyrgð bílstjórans. Það er ekki vinnandi vegur fyrir útgerðarmann að fylgjast með því, eða allavega mjög erfitt,“ segir Óskar Jens.

Spurður hvort munur sé á þeim hópi sem keyrir með hættulegan farm á vegum landsins og annarra, með tilliti til aldurs og reynslu, segir Óskar Jens að hann hafi ekki heyrt um það.

„Það er samt auðvitað alltaf endurnýjun í þessum hópi. Þetta er stór hópur manna, þúsundir manna. Það er áætlað að rútu- og strætisvagnabílstjórar séu um þúsund og síðan eru það allir hinir,“ segir hann, en ekki eru allir bílstjórarnir félagsmenn í Sleipni. „Þessir bílstjórar eru hirst og her, bæði í okkar félagi og annars staðar,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert