Sammála að tengja strandið ekki hvalaskoðun

Grindhvalir við Garðskagavita.
Grindhvalir við Garðskagavita. mbl.is/Alfons

Við vorum sammála um að strandið hefði ekkert með hvalaskoðunina að gera, segir Rann­veig Grét­ars­dótt­ir forsvarskona Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja eftir fund með Gísla Arnóri Víkingssyni, sjávarlíffræðingi hjá Hafrannsóknastofnun.

Tilefni fundarins voru um­mæli líf­fræðings Haf­rann­sókn­ar­stofn­un­ar á RÚV um helgina um að hvala­skoðun­ar­skip gætu hafa ruglað hvala­vöðu í rím­inu með þeim af­leiðing­um að hún leitaði á land við Garðskaga.

Fréttastofa RÚV hafði eftir Gísla fyrr í dag að hann telji ummæli líffræðingsins hafa verið mistúlkuð. Ekki séu bein tengsl á milli hvalaskoðunar og hvalrekans á Garðskaga og það hafi hann ekki sagt, heldur að það væri eitt að því sem þyrfti að skoða. 

Rannveig Grétarsdóttir, forsvarskona Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja segir fundinn með Hafrannsóknarstofnun hafa …
Rannveig Grétarsdóttir, forsvarskona Samtaka hvalaskoðunarfyrirtækja segir fundinn með Hafrannsóknarstofnun hafa verið gagnlegan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannveig segir þetta hafa komið skýrt fram á fundinum með Gísla. „Hann var sammála okkur um að ekki væri hægt að tengja hvalaskoðunarbátana við þetta  strand. Við áttum góða umræðu um þessi strönd og um þessa grindhvali. Hvað við getum gert öðru vísi og betur. Hvernig eigi að bregðast við þegar þeir stranda og hvað við getum gert til að hjálpa til.“

Vekur upp spurningar um hegðun 

Rannveig segir Gísla hafði skoðað myndband sem sýnt var í sjónvarpsfréttum í gær af 5-6 hvalaskoðunarbátum fylgja eftir grindhvölum á Faxaflóa. „Það er tekið hálfum mánuði áður en hvalirnir stranda og er tekið úti á Flóa þegar hvalirnir eru á vesturleið. Það er ekkert að því að elta þá þegar þeir eru á útleið.“ Gísli hafi ekki heldur talið neitt rangt hafa verið gert þar, enda hafi bátarnir haldið ákveðinni fjarlægð frá hvölunum.  

Hvalaskoðunarbátur og lundaskoðunarbátur í Faxaflóa. Mynd úr safni.
Hvalaskoðunarbátur og lundaskoðunarbátur í Faxaflóa. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum þó auðvitað öll sammála um að 5-6 bátar eiga ekki að vera lengi hjá þeim,“ bætir hún við. Kveðst Rannveig hafa fengið sent myndband frá einum skipstjóranna að loknum sjónvarpsfréttum gærdagsins sem tekið hafi verið 20 mínútum eftir fyrra myndbandinu. „Það sýnir hvalina 20 mínútum síðar. Þá er bara einn bátur eftir og þeir koma syndandi að honum,“ segir hún.

„Þetta kemur þessu strandi ekkert við, en þetta vekur upp spurningar um hvernig við eigum að hegða okkur og við ræddum það.“ Rannveig segir Gísla ekki hafa haft sérstakar leiðbeiningar varðandi þetta, en þetta sé samtal sem samtökin geti tekið upp með skipstjórunum og hvalasérfræðingum.

Félagar í samtökum hvalaskoðunarfyrirtækja hafi raunar þegar hafið samtalið innan sinna raða. „Við erum alltaf að ræða hvort það sé eitthvað sem megi gera betur,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert