Allt sami Bandaríkjaher

Kertum fleytt í rökkrinu.
Kertum fleytt í rökkrinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í afstöðu Íslendinga til Bandaríkjahers virðist gæta þess misskilnings að bandaríski herinn í Keflavík hafi verið einhver annar en sá sem varpaði kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki, stundaði fjöldamorð á óbreyttum borgurum í Víetnam og heldur úti Guantanamo-búðum.

Þetta sagði séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, er hann ávarpaði kertafleytingu samstarfshóps friðarhreyfinga við Reykjavíkurtjörn nú í kvöld. Kertum er fleytt til minningar um kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki, en nú í vikunni eru 74 ár liðin frá voðaverkunum. 100.000 manns létu lífið í árásunum tveimur og er talið að álíka fjöldi fólks hafi síðar dáið vegna geislunar.

Viðskiptatækifæri í morðárásum

Davíð gerði að umtalsefni sínu ákall friðarsinna „Aldrei aftur Hiroshima! Aldrei aftur Nagasaki!“ Það sé gott og gilt, en dugi ekki til. Mótmæla verði hvers kyns hernaði og ofbeldi, og nefndi Davíð að engum kertum væri fleytt til minningar um þá 25.000 almenna borgara sem létust í Dresden í Þýskalandi í loftárásum Bandaríkjamanna í febrúar 1945. Borgin hafi haft lítið sem ekkert hernaðarlegt vægi, Þjóðverjar verið á undanhaldi og glitt í stríðslok. Tilgangurinn hafi verið sá einn að vinna „auðmýkjandi menningarhryðjuverk á óvini“.

Séra Davíð Þór Jónsson ávarpaði kertafleytinguna
Séra Davíð Þór Jónsson ávarpaði kertafleytinguna mbl.is/Kristinn Magnússon

Engum kertum var heldur fleytt í mars til minningar um að 51 ár væri liðið frá því að bandarísk herdeild réðst inn í víetnamska þorpið My Lai og myrti með hrottafengnum hætti 500 óbreytta borgara.

Davíð sagði viðhorf íslenskra stjórnvalda undantekningarlaust hafa verið að í morðárásunum felist gríðarleg viðskiptatækifæri. Þrýsta verði á íslensk stjórnvöld að láta af fyrirhuguðum uppbyggingaráformum hersins í Keflavík hvað sem líður atvinnu-  og tekjuskapandi framkvæmdum. Hvað kostar það að hrópa þess í stað „Aldrei afrur morðárásir á óbreytta borgara, og erum við reiðubúinn að hrópa það í kjörklefanum í næstu alþingiskosningum?“ spurði Davíð Þór viðstadda.

Kertafleytingin er nú haldin í 35. sinn á Reykjavíkurtjörn, og var þeim í þetta sinn einnig fleytt á Akureyri, Ísafirði og Patreksfirði. Á Akureyri flutti Wolfgang Frosti Sahr framhaldsskólakennari ávarp.

mbl.is/Kristinn Magnússon
Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, stýrði fundi.
Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi formaður Stúdentaráðs, stýrði fundi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert