Skúli gerir 3,8 milljarða kröfur í WOW

Skúli Mogensen var forstjóri WOW air.
Skúli Mogensen var forstjóri WOW air. mbl.is/RAX

Skúli Mogensen og félög tengd honum gera 3,8 milljarða króna kröfur í þrotabú WOW air. Þetta kemur fram í kröfuskrá þrotabúsins, sem mbl.is hefur undir höndum. Sjálfur gerir Skúli tvær kröfur, sem hljóða samanlagt upp á 797 milljónir króna, en þar að auki gera félög hans, Títan fjárfestingarfélag ehf. og TF KEF ehf., milljarðakröfur í búið.

Tæplega sex þúsund einstaklingar og lögaðilar gera kröfu í þrotabúið og nema þær rúmum 138 milljörðum króna. Forgangskröfur í búið eru um fimm milljarðar króna en undir þær falla vangreidd laun og iðgjald í lífeyrissjóði. Talið er að virði eigna þrotabúsins dugi ekki upp í forgangskröfurnar, hvað þá aðrar.

Stærstu kröfuhafar eru flugvélaleigusalar. CIT Aerospace gerir 53 milljarða króna kröfu í búið, ALC, félagið sem stóð í deilum við Isavia um kyrrsetningu vélar á Keflavíkurflugvelli á dögunum, gerir 9 milljarða og tveir aðrir leigusalar, Sog Aviation og Tungnaa Aviation gera kröfur upp á um þrjá milljarða hvor. Þá hljóðar krafa flugvélahreyflaframleiðandans Rolls Royce upp á 22 milljarða króna.

Meðal annarra stórra kröfuhafa má nena ríkisskattstjóra með 3,8 milljarða króna kröfu, Umhverfisstofnun með 850 milljóna kröfu,Höfðavík ehf., leigusali fyrirtækisins í Katrínartúni, með kröfur upp á tæpar 470 milljónir króna, Isavia með kröfur upp á 2,2 milljarða.

Ýmissa grasa kennir í kröfuskránni. Þannig gerir þýska sambandslögreglan 69 milljóna króna kröfu í búið og foreldrafélag Laugarnesskóla gerir 636 þúsund króna kröfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert