Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði spurningum flokksmanna á opnum fundi með þingflokknum í Valhöll í gær. Var hann meðal annars spurður um afstöðu til þess að láta flokksmenn kjósa um þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
„Við eigum ekki að hræðast það að kalla fram umræðu í flokknum,“ svaraði Bjarni og sagði að miðstjórn flokksins myndi taka afstöðu til beiðni þess efnis ef undirskriftasöfnun verði afhent henni vegna málsins.
Nefndi hann að slík atkvæðagreiðsla sem beðið væri um væri ráðgefandi. Var haft eftir formanninn í umfjöllun RÚV í gær að niðurstaðan myndi ekki hafa áhrif á stefnu þingflokksins í orkupakkamálinu.
Á fundinum sagði hann jafnframt að einhverjar umræður hefðu verið um framkvæmd söfnunarinnar. „Við þurfum bara að ræða það á réttum vettvangi hvernig þetta á að framkvæma,“ sagði hann, en ákvæði skipulagsreglna sem heimila atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna hefur aldrei verið beitt frá því það var sett í reglurnar.
„Þetta spratt úr umræðu um að mikilvægt væri að efla lýðræðið í landinu,“ útskýrði formaðurinn.
Nokkur umræða varð meðal flokksmanna um orkupakkann á fundinum og lýstu nokkrir fundargestir áhyggjum af orkupakkanum meðal annars vegna þess að þeir töldu að samþykkt orkupakkans myndi auka andstöðuna við EES-samningin.
Ekki voru þó allir á einu máli og voru þeir sem standa að undirskriftasöfnun til þess að knýja fram atkvæðagreiðslu um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sakaðir um að ýta undir klofning í flokknum.
Þá spurði einn fundargesta Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðarráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, hvernig það færi saman að halda því fram að hægt væri að koma í veg fyrir lagningu sæstrengs til rafmagnsflutninga til Evrópu í ljósi þess að orkupakki þrjú kveði á um að stjórnvöld ryðji úr vegi hindranir fyrir orkuflutningar yfir landamæri.
Þórdís Kolbrún sagði „ekkert í orkupakkanum sem eykur líkur á því að sæstrengur verði lagður“ og að óumdeilt væri að skipulagsvald og löggjafarvald væri enn í höndum íslenskra stjórnvalda.