Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir virkilega ánægjulegt að vinna við friðlýsingar úr verndarflokki rammaáætlunar sé nú loks komin á skrið. Ráðherra undirritaði í gær friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum og vatnasviðs hennar gagnvart orkunýtingu, en svæðið er það fyrsta af tíu úr verndarflokki rammaáætlunar sem nú eru friðuð.
Rammaáætlun var samþykkt á þingi 2013. Spurður hví verndun hafi tekið svo langan tíma, segir Guðmundur að spyrja verði forvera hans að því. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að gangskör verði gerð í friðlýsingum og segir Guðmundur Ingi að stefnt sé að því að búið verði að friðlýsa öll svæði verndarflokksins á næsta ári.
Undirrita á fleiri friðlýsingar á svæða í verndarflokki rammaáætlunar á næstu vikum, til að mynda vatnasvið Hvítár og Jökulfalls á Kili, auk vatnasviðs Tungnaár sem á upptök sín í vesturhluta Vatnajökuls.
Töluvert ferli er að baki friðlýsingunni því auglýsa þarf áformin og gefa hagsmunaaðilum, svo sem landeigendum, sveitarfélögum, náttúruverndarsamtökum og fleirum, tækifæri á að skila inn athugasemdum.
Friðlýsing Jökulsár á Fjöllum tekur til árinnar sjálfrar og vatnasviðs hennar, allt frá upptökum í jökli niður að brúnni í Öxarfirði við Ásbyrgi, þar sem undirritun fór fram í gær. Vatnasvið Jökulsár er meðal þess hluta Vatnajökulsþjóðgarðs sem ekki var færður á heimsminjaskrá UNESCO þegar Vatnajökulsþjóðgarður var tekinn þangað inn í síðasta mánuði, en það stafaði meðal annars af því að ekki var búið að friðlýsa. Alls þekur Vatnajökulsþjóðgarður ríflega 14% af flatarmáli Íslands, og stendur jökullinn sjálfur undir um helmingi þess svæðis.
Hluti garðsins sem er á heimsminjaskrá er hins vegar um 12% af flatarmáli landsins. Aðspurður segir Guðmundur að markmiðið sé að fá allan þjóðgarðinn inn á heimsminjaskrána og að unnið verði að því í samstarfi við UNESCO. Friðlýsingin sé klárlega skref í þá átt. „Þetta svæði er svo stór hluti af mótunarsögu garðsins allt frá jökli og niður að sjó,“ segir Guðmundur.