Nokkuð hefur snjóað og skafið inni í Öskju og á Öskjuvatnsvegi fyrir ofan Drekagil. Vegurinn þar er þungfær og samkvæmt upplýsingum frá Vatnajökulsþjóðgarði er vegurinn ekki fær jepplingum eins og er.
Í færslu á Facebook-síðu fyrir Öskju og Kverkfjöll kemur fram að ekki sé reiknað með að skafrenningsveðrið gangi niður að ráði fyrr en seinni partinn. Þá sé hiti í kringum frostmark og megi búast við því að vegurinn sé háll. Hins vegar hefur lítið snjóað á veginn að Kverkfjöllum og við Þorsteinsskála.
Ekki er vitað með færð á fjallveginum milli Drekagils og Nýjadals, en vegurinn ber númerið F910. Sá vegur er í meira en 900 metra hæð yfir sjávarmáli.
Ferðalöngum er bent á að hafa samband við landverði í Öskju fyrir upplýsingar á svæðinu, eða skálavörð í Nýjadal fyrir upplýsingar á Sprengisandi.