Segir Guðlaug Þór skorta rök

Kathrine Kleveland, leiðtogi samtakanna Nei til EU, vísar á bug …
Kathrine Kleveland, leiðtogi samtakanna Nei til EU, vísar á bug ásökunum um óeðlileg afskipti af umræðunni um þriðja orkupakkann. Ljósmynd/Nei til EU

„Mér finnst þetta sýna að ráðherrann skorti mikilvæg og efnisleg rök um það hvaða áhrif ACER-málið (orkupakkinn) mun hafa á Ísland. Ég hef aðra sýn [en ráðherrann] á það hvaða áhrif þetta getur haft á Íslandi, við erum örugglega ekki alveg sammála þar. Það hlýtur að vera leyfilegt að segja það,“ segir Kathrine Kleveland, leiðtogi Nei til EU í Noregi (samtaka gegn aðild að Evrópusambandinu), í samtali við mbl.is.

Tilefni orða Kleveland eru ásakanir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra í kvöldfréttum RÚV í gær um að Nei til EU og norski miðflokkurinn (Senterpartiet) hafi átt í óeðlilegum afskiptum af umræðu á Íslandi um innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.

„Okkar samskipti við aðila á Íslandi hafa verið á grundvelli beiðna frá systursamtökum okkar og þeim sem hafa haft áhuga á málinu á Íslandi. Við höfum ekki haft frumkvæði að því að eiga í þessum samskiptum og höfum ekki ferðast til Íslands án þess að okkur hafi verið sérstaklega boðið,“ útskýrir Kleveland spurð um samskiptin við íslenska aðila.

Ásakanir á báða bóga

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Norðmenn eru sakaðir um afskipti af umræðunni á Íslandi. Í viðtali Morgunblaðsins við utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Søreide, í fyrra sagðist ráðherrann hafa greint ráðherrum og alþingismönnum frá mikilvægi þess að orkupakkinn verði hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Í kjölfarið sakaði  Sigbjørn Gjelsvik, þingmaður norska Miðflokksins, og samtökin Nei til EU norska ráðherrann um að beita Ísland þrýstingi í málinu. Gjelsvik sagði orð Eriksen Søreide „forkastanleg“.

Taldi Guðlaugur Þór fullyrðingar Gjelsvik og Nei til EU vera „undarlega afbökun“ og að það hafi verið misskilningur að norski ráðherrann hafi þrýst á Íslendinga til þess að samþykkja þriðja orkupakkann.

Aðdáunarverður kraftur

Spurð um upplýsingar, sem Nei til EU hefur veitt íslenskum systursamtökum og öðrum Íslendingum um þriðja orkupakka Evrópusambandsins, svarar Kleveland að öll gögn sem Nei til EU hafi um málið séu öllum aðgengileg á vef samtakanna.

„Að sjálfsögðu eru okkar upplýsingar um orkusamstarf Evrópusambandsins – um orkupakka þrjú og fjögur auk ACER [orkustofnunar Evrópusambandsins] – aðgengilegar fyrir alla sem hafa áhuga. Við byggjum okkar starf á gagnsæi og lýðræði, þannig að hver sem er getur nýtt þessar upplýsingar. Við höfum unnið mikið með þetta málefni í Noregi,“ segir Kleveland

Hún segir Nei til EU sannfærð um að „íslenska þjóðin sjálf meti hvað sé Íslandi fyrir bestu og hvernig skal varðveita íslenska hagsmuni“.

„Okkur þykir aðdáunarverður kraftur í herferðinni á Íslandi gegn ACER-málinu (orkupakkanum) og í því samhengi höfum við ekki haft nein áhrif. Þarna hlýtur að vera um að ræða öfluga andstöðu á Íslandi enda sýnir það hversu mikilvægt málið er fyrir hagsmuni Íslands þegar slíkur fjöldi fólks kemur að málinu,“ bætir Kleveland við.

„Vill íslenski ráðherrann ganga í Evrópusambandið?“

Nei til EU-leiðtoginn bendir á að í Noregi hafi verið skýr meirihluti sem vildi hafna orkupakka þrjú, þrátt fyrir að Stórþingið samþykkti innleiðingu hans.

„Bæði Noregur og Ísland hafa ákveðið að standa utan Evrópusambandsins og þá vil ég meina að bæði löndin hafa sameiginlega hagsmuni af því að hafna valdaframsali til ESB. Þetta mál snýst um afsal fullveldis,“ segir Kleveland sem bendir á að það sé hlutverk samtakanna að vinna gegn fullveldisframsali til Evrópusambandsins.

„Í Noregi höfum við forsætisráðherra sem vill aðild að Evrópusambandinu. Hún hefur tjáð sig um íslensk stjórnmál og greinilega – samkvæmt þessu (ásökunum Guðlaugs Þórs) – vill hún hafa áhrif á íslensk yfirvöld. Ég get nú spurt, er það svo að þessi íslenski ráðherra vilji einnig ganga í Evrópusambandið? Það veit ég ekkert um.“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert