„Fyrir það fyrsta er rétt að ítreka það, sem ég hef sagt í hverju einasta viðtali um þetta mál, að það er ánægjulegt að þessar tölur eru komnar fram og við fordæmum að sjálfsögðu öll brot gagnvart launþegum á vinnumarkaði. Við erum auðvitað samherjar hvað það varðar en ekki mótherjar.“
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is vegna þeirra ummæla Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, í Morgunblaðinu í dag að það væri bull sem haft var eftir Jóhannesi í blaðinu í gær að mörg þeirra dæma sem kæmu upp þar sem brotið væri á starfsmönnum í ferðaþjónustu væri vegna mistaka. Flosi sagði að í skýrslu Alþýðusambands Íslands um málið væri aðeins tiltekin þau dæmi þar sem fyrirtæki neituðu að viðurkenna að mistök hefðu átt sér stað.
„Það er heldur ekki hægt að afgreiða þá staðreynd bara sem einhverja vitleysu að það er flókið að hefja fyrirtækjarekstur, það er flókið að átta sig á því hvernig kjarasamningar eru settir upp, til dæmis hvað varðar vinnutíma og ýmislegt fleira, og það væri áhugavert ef verkalýðshreyfingin hefði áhuga á að einfalda það á einhvern hátt til þess einmitt að koma þá í veg fyrir vandamál sem geta komið upp af þessum sökum,“ segir Jóhannes.
„Það er líka áhugavert að þetta eru 220 kröfur sem beinast að ferðaþjónustufyrirtækjum samkvæmt þessari skýrslu í ljósi þess að það starfa um 35 þúsund manns í ferðaþjónustunni. Ef við gerum ráð fyrir að það sé einn einstaklingur á bak við hverja kröfu, sem er ekki ósennilegt, þá þýðir það að 220 einstaklingar af 35 þúsund hafa séð ástæðu til þess að leita til verkalýðsfélaga með slíkar kröfur. Það segir okkur einfaldlega það að um það bil 99,4% starfsfólks í ferðaþjónustunni hafa ekki sett fram slíka kröfu,“ segir Jóhannes. Þá sé ekki gefið að kröfur eigi alltaf rétt á sér í raun.
„Þannig að sú framsetning Alþýðusambands Íslands að hér sé um að ræða einhvern almennan brotafaraldur sem ríði yfir ferðaþjónustuna, hún á bara ekki við nein rök að styðjast. Þetta er slæmt þegar slíkt á sér stað og það á ekki að líðast, um það erum við sammála, en það þýðir ekkert að loka augunum fyrir því að mikill meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja er að standa sig vel og að mikill meirihluti starfsmanna í ferðaþjónustu er að fá greitt samkvæmt kjarasamningum.“