Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun koma í opinbera heimsókn til Íslands 3. september. Frá þessu var greint á vef Hvíta hússins í gærkvöldi.
Ísland verður fyrsti viðkomustaður Pence í ferðinni, en hann mun einnig heimsækja Bretland og Írland sem fulltrúi Donald Trump Bandaríkjaforseta.
Mun Pence í Íslandsheimsókn sinni leggja áherslu á landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurskautssvæðinu, aðgerðir NATO til að bregðast við auknum umsvifum Rússlands, sem og tækifæri Íslands og Bandaríkjanna til að auka sameiginleg viðskipta- og fjárfestingatækifæri.
Pence mun dvelja á Íslandi í einn dag að því er fram kemur á vef Hvíta hússins, en að honum loknum heldur hann til Bretlands þar sem aukin tengsl Bretlands og Bandaríkjanna vegna væntanlegrar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verða á dagskrá, eins mun hann ræða hvernig megi draga úr árásargirni Íransstjórnar í Mið-Austurlöndum og ógninni sem stafi af áhrifum Kína, m.a. varðandi þróun 5G-fjarskiptakerfisins.