Ok, tragikómískt hvarf

„Tveir úr Tungunum mættir á Ok! #notOk“ tísti Jón Gnarr …
„Tveir úr Tungunum mættir á Ok! #notOk“ tísti Jón Gnarr eftir heimsókn í Kaldadal. Hann hætti sér ekki alla leið upp á Ok en fór að fjallsrótunum, þar sem hann rakst á embættisbróður sinn Dag B. Eggertsson. Twitter/Jón Gnarr

„Ja, sorglegt, jú, þetta er eitthvað sem er að gerast… en þetta er líka í rauninni svolítið tragikómískt. Við erum að upplifa loftslagsbreytingar á þennan hátt en okkur finnst það samt í kjarnann svolítið jákvætt,“ segir Jón Gnarr, grínisti og fv. borgarstjóri, í stuttu spjalli við mbl.is.

Hann fór að rótum fjallsins Oks í morgun, þess sem áður var jökull en var sviptur þeirri nafnbót, því hann bráðnaði og hvarf. Það var verið að syrgja það fráfall en jafnframt reisa jöklinum minnisvarða við hátíðlega athöfn.

Andri Snær Magnason rithöfundur og náttúruverndarsinni, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og …
Andri Snær Magnason rithöfundur og náttúruverndarsinni, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Ég kíkti þarna þar sem fólk kom saman en lagði nú ekki í gönguna upp fjallið,“ segir Jón en um hundrað manna hópur kom saman í Kaldadal við rætur Oks til að ganga fjallið í haustlegum næðingi. „Þrátt fyrir alla hlýnun ber Kaldidalur enn þá nafn með rentu,“ segir Jón og hlær. „Það var alveg skítkalt þarna.“

Jón hefur verið viðriðinn verkefni í tengslum við hvarf jökulsins. Vinir hans frá Texas, Cy­mene Howe og Dom­inic Boyer, mann­fræðing­ar og rann­sókna­fólk við Rice-há­skóla, komu að gerð heimildarmyndar um staðinn.

Cymene Howe, Dominic Boyer og Andri Snær Magnason með minningarskjöldinn …
Cymene Howe, Dominic Boyer og Andri Snær Magnason með minningarskjöldinn í vikunni, sem var settur á Ok. Í texta Andra Snæs á skild­in­um seg­ir að bú­ast megi við að á næstu 200 árum fari all­ir jökl­ar sömu leið og Ok­jök­ull. Hvarf hans geti verið upp­hafið að öðru og meira. mbl.is/Sigurður Bogi

Loftslagsmál rædd án meiriháttar sundrungar

„Það er mikill áhugi á þessu um allan heim. Þetta er náttúrulega stórmerkilegt, jökull sem er ekki lengur jökull. Meðal þess sem þau eru að reyna að gera með þessari mynd er að fjalla um þetta svolítið á annan hátt en með pólaríseringunni sem hefur verið í þessari umræðu um að mennirnir eigi hver að skammast sín niður í tær fyrir að vera að eyðileggja jörðina,“ segir Jón.

Í staðinn segir hann að geti verið æskilegra að ræða þessi mál líka í kómískara ljósi, eða hlýlegra ljósi — talandi um hlýnun. „Það er náttúrulega þannig hér á Íslandi að viðhorf fólks til hlýnunarinnar er blendið. Fólk áttar sig alveg á að það að jöklar séu að bráðna hérna er ekki komið til af góðu, en á sama tíma er ekkert rosalega neikvætt gagnvart því að hér sé að hlýna aðeins. Sumarið núna sló öll met í hita og fólk er bara ánægt með það. Og mínar tilfinningar eru líka bara blendnar. Ég get ekki sagt að ég vilji ekki að það sé gott veður,“ segir Jón.

Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til þess að hverfa og missa titilinn jökull. Jón nefnir að hluti af þessum skrýtnu tragíkómísku tilfinningum í kringum þann atburð sé kominn til af þeirri staðreynd að jöklar séu í raun ekki beint nauðsynlegir manninum. „Það er ekki eins og það sé einhver sérstök kartafla sem vex aðeins á jökli,“ segir hann. Því velti fólk þessum breytingum kannski síður fyrir sér dagsdaglega, á meðan allir taka eftir því ef veðrið er gott.

Fólk kom saman við rætur Oks að morgni til að …
Fólk kom saman við rætur Oks að morgni til að ganga upp og koma fyrir minnisvarðanum á hádegi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta eru almestu loftslagsbreytingar sem jörðin hefur gengið í gegnum á löngum tíma og auðvitað erum við sem einstaklingar að hugsa: hvernig get ég lagt mitt af mörkum til að sporna gegn þessu,“ segir Jón. „Fyrir marga sem fara að velta þessum málum fyrir sér verður þetta auðveldlega tilefni til þunglyndis. Maður má sín lítils gagnvart þessu, hugsar maður stundum. Bara jæja, búið að hengja orðu á jökulinn. Þá er það bara næsti jökull.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert