„Ein af forsendum þess að hér sé hægt að skapa eitthvert eðlilegt rekstrarumhverfi fyrir sjálfstæða fjölmiðla er að taka RÚV af auglýsingamarkaði, draga úr starfsemi Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði almennt og leyfa einkaaðilum að keppa á einhverjum þeim grunni sem nálgast það að vera jafnræðisgrunnur,“ segir Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið á föstudag að það væri í undirbúningi að RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði og fengi í staðinn aukna styrki.
Óli Björn segir að honum lítist mjög vel á það fyrra, en hið síðara sé í raun önnur umræða, hvort „bæta“ þurfi RÚV tekjumissinn, en stofnunin aflar nú tæpum 2 milljörðum króna árlega með sölu auglýsinga. Hann segir það mögulega skynsamlegt að leggja útvarpsgjaldið niður og setja RÚV alfarið á fjárlög.
„Það kann líka að vera að það sé skynsamlegt í þessu samhengi að við leggjum niður útvarpsgjaldið, sem lagt er á alla einstaklinga sem eru 16 ára og eldri, utan ellífeyrisþega, og öll fyrirtæki þurfa að borga. Það er þá miklu skynsamlegra að Ríkisútvarpið sé á hreinum fjárlögum og þá geta menn markað stefnu Ríkisútvarpsins til lengri tíma í fjármálaáætlun líkt og gert er með önnur ríkisfyrirtæki,“ segir Óli Björn.
Hann segir að sú stefna hljóti að miðast að því að tryggja eðlilega starfsemi RÚV og „ef menn á að annað borð telja að það sé nauðsynlegt að reka Ríkisútvarpið“ verði þá gert ráð fyrir því í fjárlögum með eðlilegum fjárframlögum.
Allt segir Óli Björn þetta snúast um að búa til heilbrigt rekstrarumhverfi fyrir einkarekna fjölmiðla, en raunar segir hann að þessi umræða nái út fyrir fjölmiðlageirann.
„Þú getur auðvitað fært umræðuna yfir á aðra markaði í samfélaginu, því það er alveg ljóst að það eru fleiri ríkisfyrirtæki, […] fleiri opinber hlutafélög, sem hafa nýtt sér öll þau tækifæri sem þau hafa fengið til að ræðast inn á markaði í samkeppni við einkafyrirtæki. Þessu verður að breyta, það verður að koma böndum á þennan samkeppnisrekstur ríkisins, ekki bara á fjölmiðlamarkaði,“ segir þingmaðurinn.
Finnst þér RÚV ganga inn á svið sem það á ekki að sinna?
„Já, þeir eru til dæmis komnir í samkeppni við kvikmyndagerðarmenn varðandi tækjaleigu og annað slíkt. Það er auðvitað galið,“ segir Óli Björn. Hann bætir því við að svo sé það annað mál, sem ræða þurfi eftir að RÚV er farið af auglýsingamarkaði, hvort ríkið eigi yfir höfuð að reka fjölmiðil.
„Ef við erum sammála um það, þá eigum við eftir að taka ákvörðun um það hverskonar fjölmiðill er þetta. Er þetta fjölmiðill sem er að huga helst að fréttatengdu efni, menningu lands og þjóðar og sé á þeim vettvangi, en kannski ekki í léttmeti frá Bandaríkjunum eða einhversstaðar annarsstaðar frá,“ segir Óli Björn.
Hann segir afstöðu þingflokks sjálfstæðismanna til þess fjölmiðlafrumvarps sem mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram í maí hafa verið þá að það væri ekki hægt að gera umhverfi einkarekinna miðla „sæmilega heilbrigt“ nema RÚV færi alfarið út af auglýsingamarkaði.
„Það er eindregin skoðun allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þau skilaboð liggja á borði allra sem til málsins þekkja,“ segir Óli Björn og bætir við að það sé „allt önnur umræða hvernig eigi að „bæta“ Ríkisútvarpinu upp það tekjutap.“