„Baulað“ á forsetann í reiðhöllinni

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti sýninguna Sveitasælu í reiðhöllinni …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti sýninguna Sveitasælu í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki um helgina. Ljósmynd/forseti.is

Guðni Th. Jóhannesson forseti gerði víðreist í Skagafirði og Húnaþingi um helgina. Var hann viðstaddur opnun landbúnaðarsýningar á Sauðárkróki, skoðaði þar nýtt sýndarveruleikasafn, opnaði sögusýningu í Kakalaskála í Blönduhlíð og afhjúpaði minnismerki á Skagaströnd um Jón Árnason þjóðsagnasafnara, er haldið var málþing í tilefni 200 ára fæðingarafmælis Jóns. Hélt Guðni einnig fyrirlestur á því málþingi.

Guðni hóf ferðina í reiðhöllinni Svaðastöðum þar sem hann setti landbúnaðarsýninguna og bændahátíðina Sveitasælu, sem þar hefur verið haldin nokkur undanfarin ár. Þar getur að líta það nýjasta í landbúnaðartækni, bændur sýna afurðir sínar og handverk margs konar og einnig var hægt smakka á því besta sem matarkistan Skagafjörður hefur upp á að bjóða. Krakkar og aðrir gestir gátu einnig skoðað búfé; hesta, kindur, geitur, kýr og kálfa.

Í samtali við Morgunblaðið og mbl.is sló Guðni einmitt á létta strengi um ávarp sitt í reiðhöllinni, innan um bændur og búfénað:

„Í mínu opnunarávarpi var einmitt baulað á mig. Ég varð að þola það en vil halda því til haga að Skagfirðingar hafa verið gestrisnir, eins og þeirra er von og vísa.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka