Agnes Bragadóttir
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, staðfesti í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hún yrði ekki stödd hér á Íslandi þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kæmi í heimsókn til Íslands hinn 4. september næstkomandi.
„Það er rétt hjá þér. Fyrir nokkrum mánuðum samþykkti ég að vera ræðumaður á þingi Norrænu verkalýðssamtakanna, sem einmitt á sér stað þessa daga, og ég hef ekki séð ástæðu til þess að breyta þeirri dagskrá minni,“ sagði forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld.
Forsætisráðherra sagði jafnframt að hún væri hvenær sem væri reiðubúin að funda með ráðamönnum Bandaríkjanna sem og annarra samstarfsþjóða Íslands.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði af sama tilefni að hann vissi ekkert um áform forsætisráðherra og vissi því ekkert um það hvort hún yrði á landinu eða ekki þegar varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, kæmi hingað í heimsókn 4. september næstkomandi.