„Þetta hefur gengið mjög vel. Ekkert hefur bilað hjá mér sem ég átti alveg von á. Ég hef bara þurft að smyrja keðjuna tvisvar sinnum,“ segir Óskar Guðmundsson, lögreglumaður og hjólagarpur með meiru, sem er kominn til Reykjavíkur eftir að hafa hjólað yfir hálendið frá Fáskrúðsfirði rúmlega 600 kílómetra.
Hann lagði af stað síðasta spölinn frá Úlfarsfelli í Mosfellsbæ niður á Lækjagötu í Reykjavík í dag þar sem Reykjavíkurmaraþonið fer fram um helgina en hann hyggst einnig taka þátt í því. Félagar hans á Fáskrúðsfirði hjóluðu honum til stuðnings í spinningtíma á Austfjörðum á sama tíma og Óskar hjólaði síðasta áfangann.
Allt gekk samkvæmt áætlun. Óskar hjólaði á bilinu 60-70 km á dag yfir hálendið á 10 dögum.
Óskar hefur fengið „alls konar veður“ þar á meðal kröftugan mótvind beint í fangið. Hann lét það ekki stoppa sig enda með góðan stuðning frá konu sinni, Málfríður Ægisdóttir, sem fylgdi honum keyrandi alla leið. „Hún á ekki minni þátt í þessu en ég. Á erfiðustu köflunum örmagnaðast ég þrisvar á dag. Hún dró mig inn í bíl og gaf mér að borða. Ég hefði aldrei farið í þetta nema með hana með mér,” segir hann. Spurður hvort þetta hafi reynt á sambandið og hvort hjónaskilnaður sé nokkuð í uppsiglingu þvertekur hann fyrir það. „Okkur líður vel saman og það hefur ekkert breyst eftir þessa ferð,“ segir hann og hlær.
„Ég finn ekki fyrir neinu. Ég er algóður,“ segir hann um líðan sína í skrokknum. Spurður hvort hann sé heljarmenni neitar hann því og bætir við: „Þetta sýnir bara að þetta er ekkert mál.“
Óskar safnar til styrktar Samhjálp. Hér er hægt að styrkja málefnið á vefnum hlaupastyrkur.is