„Stærsta ógnin sem steðjar að okkur er enn hættan á hryðjuverkaárásum íslamskra bókstafstrúarmanna en við þurfum engu síður að vinna áfram að því að berjast gegn hvers konar öfgastefnu,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs og formaður Hægriflokksins, í samtali við mbl.is úti í Viðey í dag.
Á blaðamannafundinum hafði hún sagt að hægriöfgastefnu í Noregi hafi greinilega vaxið fiskur um hrygg.
Með síðarnefndri öfgastefnu, sem hún telur ekki eins aðsteðjandi ógn, var Solberg að vísa til hvítu hryðjuverkamannanna sem hefur orðið vart með mishræðilegum hætti í Noregi síðustu ár, síðast í Bærum í Noregi fyrir rúmri viku þar sem ungur norskur maður réðst vopnaður inn í mosku án þess þó að nokkur léti lífið.
Þegar Solberg var spurð hvort raunveruleg ógn felist í öfgastefnu eins og þeirri sem birtist í slíkum verknaði sagði hún ljóst að svo væri. „Það felst auðvitað raunveruleg ógn í því að árið 2011 upplifðum við eina stærstu svona árás sem öll Evrópa hefur upplifað. Það var norskur ungur maður,“ sagði Solberg og var að vísa til hryðjuverkanna í Útey, þar sem á áttunda tug manna létust sama dag í Noregi.
„Síðan reyndi maður að fremja árás nýverið í mosku en var yfirbugaður af viðstöddum. Báðir þessara manna hafa verið einir á ferð en þeir hafa orðið fyrir áhrifum af hreyfingum á samfélagsmiðlum,“ sagði Solberg.
Hún sagði að fjandsamleg umræða um múslima á netinu væri að aukast og að netið væri vettvangur til skoðanaskipta sem þessara. Ennfremur sæi norska öryggislögreglan að þegar árásir eru framdar úti í heimi, eins og í Nýja-Sjálandi hér um árið, þá eykst svona umræða á netinu í Noregi. Það sé merkjanleg aukning.
Solberg var spurð á blaðamannafundinum um þær áhyggjur sem Norðmenn hafa lýst yfir um að glæpastarfsemi frá Svíþjóð sé farin að teygja anga sína yfir Noregs og hvað hún teldi að Norðmenn gætu gert til að bregðast við þeirri þróun.
Solberg byrjaði á að taka af öll tvímæli og sagði að engin tenging væri á milli árásartilraunarinnar í moskunni á dögunum og Svíþjóðar. Engu síður hafi fundist vísbendingar um að öfgahópar frá þessum löndum séu í samstarfi sín á milli og því þurfi að finna leiðir til þess að uppræta slíka starfsemi. „Við þurfum að vera heiðarleg: Aukning hægriöfgastefnu er hraðari en hún var áður,“ sagði Solberg en ítrekaði áður að öfgastefnan væri ýmiss konar. Þar þyrfti að fara í saumana á málunum og kanna hvernig þessir straumar lægju á milli landanna.