Leynist tyggjódólgur í Kjarnaskógi?

Kjarnaskógur á Akureyri.
Kjarnaskógur á Akureyri. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Einar Sigtryggsson, menntaskólakennari á Akureyri, hefur á síðustu fjórum vikum nánast fyllt 20 lítra fötu af tyggjóklessum sem hann tínir upp af göngustígnum í Kjarnaskógi á Akureyri. 

Alls munu klessurnar vera 9.446 talsins, að því er kemur fram á Facebook-síðu blaðamannsins Skapta Hallgrímssonar, sem ræddi við Einar, sem kennir stærðfræði, stjörnufræði og náttúrulæsi við MA. Áhugi hans á tölum útskýrir því væntanlega þessa ítarlegu tyggjóklessutalningu hans. 

Nær allt er þetta nikótíntyggjó og telur Einar einhvern gera sér það að leik að dreifa því á göngustíginn. „Viðkomandi hlýtur að tyggja þetta yfir daginn og geyma í bréfinu en kemur svo og dreifir tyggjóinu á stíginn, spjöldin eru hins vegar samviskusamlega sett í rusladallana,“ segir hann.

Einar Sigtryggsson með fötuna.
Einar Sigtryggsson með fötuna. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

„Þetta byrjaði þannig að við fjórum í hjóltúr á fimmtudegi og enduðum á því að fara hringinn á göngustígnum í Kjarna. Mér blöskraði hve mikið tyggjó var á stígnum svo ég fór daginn eftir og byrjaði að tína, þurfti fjórar ferðir og tíndi um 8.000 klessur. Síðan hafa því bæst við um 1500, nýtuggnar og ferskar klessur,” bætir hann við.

Einar segist vita um fleira fólk sem ofbjóði ástandið og hafi tínt töluvert upp af stígnum og segir uppátækið ótrúlegt. Um einbeittan brotavilja sé að ræða og nánast skipulagða glæpastarfsemi.

Einar stefnir að því að ná 10 þúsundustu tyggjóklessunni fyrir afmælið sitt á laugardaginn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert