Merkel heimsótti Hellisheiðarvirkjun

Angela Merkel skoðaði Hellisheiðavirkjun með Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR, og …
Angela Merkel skoðaði Hellisheiðavirkjun með Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR, og Bjarna Bjarnason forstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Angela Merkel, kanslari Þýskalands heimsótti Hellisheiðarvirkjun í morgun til að kynna sér jarðhitanýtingu Íslendinga og þróunarverkefni tengd henni, ekki síst kolefnisbindinguna við Hellisheiðarvirkjun.

Þau Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, og Bjarni Bjarnason forstjóri tóku á móti Merkel og var síðan sest við spjall yfir kaffi og kleinum að því er segir í fréttatilkynningu frá ON. Ýmsir pólitískir og efnahagslegir ráðgjafar kanslarans voru með í för.

Þau Bjarni, Brynhildur og Hildigunnur H. Thorsteinsson, stjórnarformaður ON, ræddu jarðhitanýtinguna almennt. Þá kynnti Edda Sif Pind Aradóttir Merkel kolefnisbindingarverkefnið CarbFix , sem rekið er við virkjunina, en einn angi þess rannsóknar- og þróunarverkefnis teygir sig til Þýskalands þar sem unnið er með Tækniháskólanum í Bochum.

Merkel er sögð hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Spurði hún sérstaklega út í hvort steinrenna megi koltvíoxíði víðar um veröldina en hér á landi og fékk jákvætt svar.

Sest var við spjall yfir kaffi og kleinum.
Sest var við spjall yfir kaffi og kleinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert