„Staðreynd: Við erum sterkari sameinuð!“ Þetta sagði Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar þegar loftslagssáttmáli fimm Norðurlandaþjóða var undirritaður í Hörpu í morgun, samkomulag á milli forsætisráðherra þjóðanna fimm og ýmissa forstjóra norrænna fyrirtækja um að grípa til aðgerða í loftslagsmálum, eða alltént samkomulag um, að það verkefni skipti máli.
„Það er lýsandi fyrir það hve mikið ríður á, að þetta umræðuefni er orðið miðlægt í allri umræðu okkar ráðherranna,“ sagði Katrín þegar hún bauð fólk velkomið á fundinn í Norðurljósum. Þar var viðstaddur mikill fjöldi fjölmiðlamanna og aðstandenda þeirra sem áttu hlut að máli. Lítið var um óbreytta borgara.
Hver ráðherra hélt örstutta tölu og flestir tíunduðu aðgerðir þær sem þeir hefðu sjálfir gripið til í heimalandi sínu. Fulltrúar Álandseyja og Grænlands fengu að vera viðstaddir þennan fund, en fara ekki út í Viðey að hitta Angelu Merkel Þýskalandskanslara á eftir, ekki frekar en fulltrúar Færeyja. Svo voru vitaskuld ráðherrar Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur á staðnum í morgun.
„Það er lykilatriði að hið opinbera og einkageirinn fari hönd í hönd í þessum málum,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana.
„Samvinna er lykilatriði,“ sagði Antti Rinne, forsætisráðherra Finnlands.
„Þetta sýnir að norræn fyrirtæki eru fremst í flokki í sjálfbærni og nýsköpun,“ sagði Stefan Löfven, ásamt því sem kom fram hér að ofan.
Kim Kielsen, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, er víst ekki sleipur í enskunni og talaði því dönsku. „Það er of seint núna, en við erum samt farin af stað og við erum ánægð með það,“ sagði hann.
Katrín Sjögren landsstjóri Álandseyja, sem eru undir finnskri stjórn: „Þetta er fullkomin leið til að stunda stjórnmál.“