Um þrjátíu ferðamenn sem höfðu virt að vettugi borða sem girðir af austasta hluta Reynisfjöru voru reknir þaðan í burtu í dag.
Sigurður Sigurbjörnsson hjá lögreglunni á Suðurlandi segist hafa komið í Reynisfjöru eftir hádegi í dag. Þurfi hann þá að laga borðann því sá hluti af honum sem er næst sjónum fari yfir nóttina.
„Það var þrjátíu manna hópur alveg uppi við jaðarinn á skriðunni sem féll í gær, þannig að ég þurfti að reka þau í burtu. Þau voru í stórhættu en eftir að ég lagaði girðinguna virtist fólk virða þetta,” segir Sigurður.
„Miðað við mannskap gerum við okkar besta til að fylgjast með þessu og halda þessu lokuðu,” segir hann og bætir við að ferðamennirnir hafi verið á eigin vegum. Þeir voru meðal annars frá Asíu, Rússlandi og Bandaríkjunum.
Skriða féll úr Reynisfjalli í fyrrinótt og var svæðið því lokað almenningi. Slys urðu á fólki sem fékk grjót yfir sig.
Austasti hluti Reynisfjöru er enn lokaður og verður það eitthvað áfram. Fundað verður um stöðu mála á föstudaginn. Að sögn Sigurður munu sitja fundinn lögreglan á Suðurlandi, landeigendur og fulltrúar Vegagerðarinnar. „Þá verður staðan metin og tekin ákvörðun um hvað á að gera.”