„Miðflokksmenn eru algjörlega óútreiknanlegir“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir Miðflokksmenn áður hafa virt samkomulög að …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir Miðflokksmenn áður hafa virt samkomulög að vettugi og gæti trúað að það gerist aftur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við áttum fund með forseta Alþingis þar sem við fórum yfir þinghaldið fram undan og þar virtust allir vera nokkuð sammála um hvernig þetta þinghald yrði og hvenær því yrði lokið,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í samtali við mbl.is um þingstubbinn svokallaða sem hefst á miðvikudag.

Þingstubburinn svokallaði hefst í vikunni og mun þingið mun koma sam­an í þrjá daga til þess að ræða frum­vörp og þings­álykt­un­ar­til­lög­ur í tengsl­um við þriðja orkupakk­ann og breyt­ingu á raf­orku­lög­um. Að umræðum lokn­um fer fram at­kvæðagreiðsla áður en þingi verður frestað að nýju þangað til nýtt lög­gjaf­arþing kem­ur sam­an 10. sept­em­ber.

Gætu reynt að draga kanínu upp úr hattinum

Spurð hvort hún telji að þinghaldið muni ganga smurt eða hvort hún búist við óvæntum uppákomum segist hún ekki gera ráð fyrir óvæntum uppákomum en útilokar ekki að þingmenn Miðflokksins virði samkomulagið að vettugi.

„Miðflokksmenn eru algjörlega óútreiknanlegir og það kæmi mér ekki á óvart ef þeir myndu reyna að draga kanínu úr sínum margslungna hatti en ég get ekki gert ráð fyrir því fyrir fram því þeir skrifuðu undir samkomulag og mér finnst eðlilegt að þeir haldi það.“

„Miðflokkurinn hefur áður virt samkomulög að vettugi en í þetta skiptið var það skrifað niður á blað þannig að ég held það verði erfitt fyrir þá að bakka út úr því en alls ekki ómögulegt miðað við það sem ég þekki af þeim félögum. Það er ekkert alltaf hægt að treysta á að þeir geri það sem þeir segist ætla að gera,“ bætir hún við.

Skiptar skoðanir í þingflokki Pírata um OP3

Ekki er einhugur innan þingflokks Pírata um það hvernig greiða eigi atkvæði um þingsályktunartillögur og lagafrumvörp sem snúa að þriðja orkupakkanum. „Eins og svo oft áður þá berum við virðingu fyrir fjölbreyttum skoðunum hvert annars og þetta er mál þar sem allir geta haft sína skoðun,“ segir hún að lokum.

Hefur ekki áhyggjur af grasrót VG

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG, segir ágætisstemningu ríkja í herbúðum vinstri hreyfingarinnar fyrir þingstubbnum og ekki hægt að kvarta yfir neinu hvað hann varðar.

„Ég get ekki sagt að ég eigi von á neinu óvæntu enda ekkert sem hefur gefið það til kynna. Fundur með þingflokksformönnum og forseta Alþingis gekk vel um daginn þar sem allir voru á eitt sáttir um það hvernig hann ætti að ganga fyrir sig þannig að ég á ekki von á neinu óvæntu,“ segir hún.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður og þingflokksformaður VG.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður og þingflokksformaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir einhug ríkja innan þingflokks VG um að styðja innleiðingu þriðja orkupakkans. „Klárlega er einhver í okkar grasrót ósammála eins og í öðrum hreyfingum en það hefur ekki verið óskað sérstaklega eftir því [umræðu um málið] og ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því,“ segir hún og bætir við:

„Málið hefur ekki verið rætt innan tiltekinna stofnana flokksins og ekki verið óskað eftir því formlega þannig að ég tel ekki ástæðu til þess að hafa sérstakar áhyggjur af því.“

„Við erum algjörlega á móti þriðja orkupakkanum

„Ég held að það eigi að vera búið að negla þetta þannig niður að þetta eigi að ganga smurt án þess að það verði farið í málþóf eða eitthvað slíkt. Það er búið að festa niður alla tíma þannig það á ekki að vera hægt að teygja þetta eða toga neitt,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is.

Guðmundur segir einhug innan þingflokksins um að hafna frumvörpum og þingsályktunartillögum um þriðja orkupakkann. „Við erum algjörlega á móti þriðja orkupakkanum, það er einhugur innan flokksins og það hefur ekkert breyst,“ segir hann að lokum.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni flokksins. Flokkur fólksins er algjörlega á móti þriðja orkupakkanum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert