„Seyðisfjörður is just awesome,“ segir Jonathan Moto Bisagni, japanskur Ítali frá New York sem kallar sig hiklaust Bandaríkjamann, í upphafi viðtals við mbl.is í kvöld og játar blaðamaður undanbragðalaust að þótt margt hafi hann heyrt jákvætt um þetta fallega sveitarfélag á Austfjörðum hafi það aldrei verið orðað einmitt svona.
Bisagni, sem er sushi-kokkur að upplagi og hefur marga fjöruna sopið í þeim bransa, flutti frá New York til Seyðisfjarðar fyrir fimm árum og hefur haft fasta búsetu þar síðan í febrúar 2018 þaðan sem þau skötuhjúin aka með lífrænt ræktað grænmeti og ávexti um alla Austfirði undir merkjum Austurlands Food Coop eins og fyrirtækið heitir. Víðar hafa strandhögg hans þó verið gerð.
„Ég flutti til Washington DC fyrir tíu árum, þegar Obama varð forseti, og drekkti mér þar í sushi-bransanum, þá var allt að gerast í veitingabransanum þar. Svo varð þessi veitingastaðakulnun í Washington [e. restaurant burn-out culture] og ég sleppti bara öllu. Hugsaði með mér að nú væri ég hættur að vinna á andskotans veitingastöðum. Kærastan mín vildi fara á bakpokaferðalag um Ísland og ég stóð á krossgötum,“ segist Bisagni frá.
„Þetta var rosalegt, við vorum í eintómum teitum á þessum tíma, komum heim af barnum klukkan fimm á morgnana og vorum þess á milli að leita að ódýrum flugmiðum til Evrópu og ég man að einn möguleikinn var að millilenda á Íslandi. Þá hugsaði ég með mér „heyrðu mig, ætli það gengi ekki alveg að opna sushi-veitingastað þarna?“ Svo gúgglaði ég Ísland og hugmyndin varð sterkari. Þarna var ég búinn að vera með sama matseðilinn í Washington í tíu ár og þetta var bara orðið hundleiðinlegt,“ segir Bisagni og skellihlær þvert ofan í ömurlegar minningar.
„So I went to Seyðisfjörður and I thought like, wow, this is awsome!“ segir Bisagni þegar hann rifjar upp frumkynni sín af Austfjörðum og getur ekki varist hlátri. Hann segir draum sinn um nýveiddan fisk í sushi-rétti sína hafa staðið ofar öðru en sú draumsýn hafi þó í besta falli reynst á hverfanda hveli.
„Já, það var nú bara svona og svona með fiskinn, stundum mjög gott en stundum ekkert sérstakt. Svo þurftum við alls konar hliðarmatvörur eins og lárperu [avókadó] og þú færð það ekkert frá næsta bónda á Austfjörðum,“ segir sushi-kokkurinn og hláturinn kraumar í lágum bordún í barka hans.
„Þá fór ég virkilega að hugsa með mér af hverju við flyttum ekki inn matvörur með ferjunni [Norrænu]. Hún kemur í hverri viku og þaðan gátum við fengið alls konar vörur frá Evrópu,“ segir sá japansk-ítalski. „Og þar byrjaði þetta í raun allt.“
Það sem sushi-kokkurinn káti og danska kærastan hans, Ida Feltendal, lifa af er að selja lífrænt ræktaða ávexti og grænmeti um gervalla Austfirði þar sem Norræna færir varninginn heim hverja viku. „Þetta byrjaði þannig að við vorum með 15 fjölskyldur sem viðskiptavini, svo urðu þær fleiri og nú erum við með alla Austfirði, 20 fjölskyldur bætast við viðskiptamannahópinn hverja viku.
Ég tæki Seyðisfjörð fram yfir New York hvenær sem er, fólkið hérna er svo dásamlegt og þessi samstaða ykkar Íslendinga er mögnuð, engum í New York dytti í hug að hjálpa meðbræðrum sínum, fólki þar er bara skítsama um allt og alla nema sig og sína,“ segir Bisagni og dregur ekki fjöður yfir skoðanir sínar.
„We have about 600 people here and we have kjörbúðin, you guys in Reykjavík have a lot more to choose from,“ segir Bisagni og er framburður hans á íslenskum örnefnum nánast aðdáunarverður. Hann kveðst þó ósáttur við verslunaraðstöðu svæðisins: „We have to drive over this f**king mountain to get to Bónus in Egilsstaðir!“ segir sushi-meistarinn og dregur ekkert undan.
„Á veturna er ekkert úrval hérna, þú ert með svartar gulrætur og hálfrotið grænmeti, þannig er það bara,“ segir hinn japansk-ítalski. „Þannig að þegar við ákváðum að fara í þennan bransa [grænmetissölu sína] hugsuðum við að við yrðum að koma okkur í þannig tengsl að við værum að selja beint til neytenda og að það yrði að gerast hratt. Við byrjuðum á að flytja inn 200 kílógrömm af grænmeti með hverri ferð Norrænu en núna erum við að taka inn þrjú tonn á viku og keyrum þetta til dreifingaraðila allt niður til Djúpavogs,“ segir Bisagni og ber heiti Djúpavogs fram fullkomlega óaðfinnanlega.
„Yeah, so we're driving this stuff to Stöðvarfjörður and Breiðdalsvík, we don't go to Borgarfjörður eystri and Höfn. My friend Oddný, she's down in Djúpivogur...“ segir Bisagni frá og blaðamaður getur ekki annað en skellt upp úr yfir mögnuðum framburði viðmælandans. „Ég hringdi í hana og hún sagði mér að eftirspurn væri gríðarleg á Djúpavogi svo við fórum að aka þangað.
Allir fá það sama, við útbúum fastan pakka og notum svo heilan dag hverja viku til að aka með þetta til dreifingaraðila á fjörðunum. Við erum núna komin í þrjú tonn á viku eins og ég sagði þér og við erum að selja veitingastöðum líka. „Lot of places, like Gistihúsið in Egilsstaðir, are our customers.
Ferjan Norræna brauðfæðir Bisagni, heitkonu hans og tvö börn þeirra enda var það með þann samgöngukost í huga sem grænmetisflutningar þeirra hófust. „Norræna kemur hingað og fjöldi manns hefur atvinnu sína af ferjunni, þar sáum við okkur upphaflega leik á borði við að flytja til okkar ávexti og grænmeti til dreifingar,“ útskýrir Bisagni. Ferjan flytur hingað vörur og ferðamenn og er þannig viss lífæð fyrir samfélagið,“ segir hann enn fremur.
En ferðamannabransinn sem svo mikið hefur verið ræddur síðan hið annálaða WOW-fall í mars, hvaða áhrif hafa sveiflur hans á Seyðisfirði? „Ekki svo miklar, ég tek lítið eftir risi og falli á þeim bænum. Það sem ég tek eftir er að þið Íslendingar búið á eyju, við slíkar aðstæður gerist fólk nýtið [e. resourceful]. Þið eruð með jarðhita og ódýrt rafmagn þótt reyndar sé lítill jarðhiti hér á Seyðisfirði. Þetta þekkist ekki í Bandaríkjunum,“ segir Bisagni.
„Ég fór að hugsa með mér hvað þið eigið í þessu landi, með þetta hreina vatn og loft, vatnið í New York er eins og að drekka lapþunnan niðurgang, það er ógeð. Ég fór að hugsa um lífsgæðin sem þið Íslendingar búið við og þá kviknaði hjá mér sú sannfæring, sérstaklega eftir að við fengum alla þessa samfélagsmiðla og lýðnetið, að það er ekki hvar þú ert sem skiptir máli, það er hver þú ert,“ segir kokkurinn og ljóst að hugur fylgir máli.
„Ég hugsa svo oft um alla þessa hluti sem ég sakna ekki frá New York, umferðina og mengunina. Fólki hvaðanæva þykir svo magnað að koma til New York af því að því finnst það tilheyra einhverri rosalegri menningu. Hvaða menning er það, er það menning að vera fimm klukkutíma að ferðast einn kílómetra með almenningssamgöngutækjum? Er það menning? Þetta fólk veit einmitt ekki af hverju það er að missa þegar það telur sig hafa höndlað hamingjuna með því að komast til New York.
Ég ítreka það við þig að ég tæki Seyðisfjörð fram yfir New York hvenær sem er,“ endurtekur kokkurinn og með þeirri mögnuðu yfirlýsingu kveðjum við japansk-ítalska Ameríkanann sem með harðfylgni er orðinn einn helsti dreifingaraðili grænmetis á Austfjörðum. Vituð ér enn, eða hvat?