Arnarvarp á landinu hefur ekki gengið jafn vel síðustu öldina og einmitt nú í ár, segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Alls 56 arnarungar komust á legg í sumar, en alls settust 87 arnarpör upp í óðulum sínum í sumar sem flest eru við Breiðafjörðinn. Alls 65 paranna urpu og 39 þeirra komu ungum á legg.
„Veðráttan síðustu mánuði hefur verið sérstaklega góð og það tel ég skýra hve arnarstofninn dafnar vel núna,“ segir Kristinn Haukur í umfjöllun um afkomu arnarins í Morgunblaðinu í dag. „Annað sem ég tel líka skýra hve vel arnarstofninn stendur nú er að fuglinn fær að vera í friði á óðulum sínum og verður ekki fyrir neinu teljandi raski.“
Áætla má að nú á haustdögum séu ríflega 300 fuglar í íslenska arnarstofninum. Pörin, þ.e. arar og össur, eru samtals um 180. Ungar ársins eru 65 og svo geldfuglar sem verpa á næstu árum. Þeir gætu verið um 100. Þetta þýðir að stofninn er sterkur miðað við fyrri ár.